Þegar þrjátíu tónlistarmenn og söngvarar tóku höndum saman í Place de la Contrescarpe í París í sumar var fátt sem benti til þess að atvikið myndi vekja heimsathygli. Þar hófst óvænt svokallað flashmob-atriði – þar sem hópur fólks brýst skyndilega í söng eða dans á almannafæri en lagið sem var flutt af krafti var ekki af verri endanum; „Bohemian Rhapsody“ með Queen. Myndbandið af atriðinu hefur nú þegar fengið yfir 500 milljón áhorf á samfélagsmiðlum, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.
Mickey Callisto, 28 ára söngvari frá Sunderland á Englandi, leiddi sönginn í atriðinu. Hann segir vinsældir myndbandsins hafa komið sér algjörlega í opna skjöldu. „Ég trúi varla hversu margir hafa séð þetta. Myndbandið fór í loftið í síðustu viku og ég hef fengið hundruð skilaboða,“ sagði hann í samtali við BBC.
Callisto vakti fyrst athygli á Britain’s Got Talent fyrr á árinu þar sem honum var strax líkt við Freddie Mercury. Það varð til þess að tónlistarmaðurinn Julien Cohen, sem skipulagði og stjórnaði flashmobinu, bauð honum að taka þátt ásamt gítarleikaranum Olly Pearson, sem einnig kom fram í BGT.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Myndbandið hefur fengið yfir tólf milljón læk á Instagram og hlotið lof frá eftirlifandi meðlimum Queen.
„Opinbera Queen-síðan skrifaði að þau elskuðu þetta, það var ótrúlegt,“ sagði Callisto. Hann bætti við að það hefði verið „eins og að skora mark á heimavelli Sunderland“.
Flutningurinn í París hefur jafnframt opnað ný tækifæri fyrir söngvarann. Hann hefur þegar fengið boð um að koma fram í Singapúr og Amsterdam, auk þess sem fjölmargir hafa haft samband eftir að myndbandið fór á flug.
Hér má sjá flutninginn.
| Klara Einars gerir sig klára fyrir jólin (7.11.2025) — 00:05:56 | |
| Hvað vissir þú ekki um hitt kynið áður en sambúð hófst? (7.11.2025) — 00:05:53 | |
| Segir þú makanum hvað varan kostaði? (7.11.2025) — 00:02:48 | |
| Gugga Lísa - Engillinn minn (6.11.2025) — 00:04:56 |