Rændi Bubba Morthens eftir partí „á sínu villtasta skeiði“

Bubbi verður meðal gesta á sviði með Stuðmönnum á langþráðum …
Bubbi verður meðal gesta á sviði með Stuðmönnum á langþráðum 50 ára afmælistónleikum plötunnar Sumars á Sýrlandi. Jakob Frímann rifjaði upp þegar hann rændi Bubba úr partíi og fékk hann með sér á svið. Samsett mynd: t.v Mbl.is/Eyþór t.h mbl.is/mbl.is/Birta Margrét

Langþráðir afmælistónleikar Stuðmanna í tilefni 50 ára afmælis plötunnar Sumars á Sýrlandi seldust upp á örfáum mínútum fyrr í vikunni. Miðarnir ruku út svo hratt að margir þurftu að bíta í það súra, þar á meðal þáttastjórnendur Skemmtilegri leiðarinnar heim sem hringdu í Jakob Frímann Magnússon til að forvitnast um tónleikana, sem fara fram í Hörpu 15. nóvember.

Jakob rifjaði upp ótrúlegar sögur frá ferlinum í þættinum með Regínu, Jóni og Ásgeiri.

„Hlutirnir gerast hratt, krakkar mínir. Maður ræður ekki neitt við neitt. Þetta gufar upp bara samstundis og fer út í veður og vind,“ sagði hann.

Hann útilokaði ekki að fleiri tónleikar gætu bæst við vegna mikillar eftirspurnar.

„Menn deyja ekkert ráðalausir þó að miðar hverfi sem dögg fyrir sólu,“ bætti hann við kíminn.

Gestalisti kvöldsins er ekki af verri endanum; þar stíga á svið Bríet, Magni, Salka Sól, Mugison, Friðrik Dór og Bubbi Morthens.

Það verður sannkölluð Stuðmannaveisla í Hörpu í nóvember.
Það verður sannkölluð Stuðmannaveisla í Hörpu í nóvember.

Jakob rifjaði þá upp að Bubbi hefði líklega aðeins einu sinni áður komið fram með Stuðmönnum, og það kvöld, um miðjan níunda áratuginn, gleymist seint.

Samstarfið varð til þegar Egill Ólafsson forfallaðist vegna verkefnis í Þjóðleikhúsinu.

„Við vorum í Vestmannaeyjum og brjálað veður í veðurkortunum. Eini söngvarinn á Íslandi sem treysti sér fyrirvaralaust til að hlaupa í skarð Egils var Bubbi Morthens. Við skulum segja í sínu „villtasta skeiði“,“ sagði Jakob. 

Bubbi setti þó fyrirvara: „Ég treysti mér auðvitað ekki alveg fyrirvaralaust. En ef þú færð engan annan máttu hafa samband við mig.“

Svo tókst ekki að ná í hann aftur. Jakob mætti sjálfur, eldsnemma að morgni, og dró hann með sér.

„Ég enda á því að ræna Bubba Morthens klukkan hálf sex um morguninn, nýkomnum úr partíi. Fór með hann beint út í ferju. Hann byrjaði á því að standa upp í káetunni þar sem hann var nýlagstur og kastaði upp kvöldmatnum og hádegismatnum. Ég þurfti að hlaupa fram í mötuneyti til að ná í gaffal og hræra í vaskinum,“ sagði Jakob kíminn.

Tónleikarnir reyndust einhverjir eftirminnilegustu í sögu Stuðmanna. Mynd af hópnum um þetta leyti, ásamt Bubba má sjá á Facebook-síðu sveitarinnar en atvikið var rifjað upp fyrir 10 árum. 

„Það tókst ekki að tæma salinn eftir síðasta lag. Eftir þriðja og fjórða uppklappslagið varð að tæla dyravörð til að leiða fólk í óvæntan kóngadans út á götu. Þannig var skellt í lás,“ lýsti hann.

Þegar hann var spurður hvað hefði verið í glösunum þegar ódauðleg lög og textar Sumars á Sýrlandi urðu til, var svarið stutt:
„Þarna var nú aðallega jasmín-te á boðstólnum og örlítið Braga-kaffi í bland,“ sagði hann.

Hér má hlusta á viðtalið við Jakob í heild sinni í Skemmtilegri leiðinni heim. 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist