Það er ekki að ástæðulausu sem Greifarnir hafa öðlast goðsagnastöðu í íslenskri tónlistarsögu, ekki síst fyrir hlutverk sitt á útihátíðum og sveitaböllum landsins.
Kristján Viðar Haraldsson og Sveinbjörn Grétarsson, betur þekktir sem Viddi og Bjössi úr Greifunum, litu yfir farinn veg í Ísland vaknar í morgun, rifjuðu upp eftirminilegar útihátíðir og tóku svo viðeigandi lag í beinni fyrir hlustendur.
Hljómsveitin ástsæla fagnar heilum 40 árum á næsta ári en sveitin stígur á svið tvisvar um komandi verslunarmannahelgi. Annars vegar í Hveragerði á föstudag, 1. ágúst í Skyrgerðinni frá 22:00-1:00. Seinna giggið verður svo í stóra tjaldinu í hjarta Hafnafjarðar frá 20:00 til 23:00, laugardagskvöldið 2. ágúst.
Félagarnir staðfestu jafnframt að von er á nýju efni frá sveitinni fljótlega í tilefni afmælisársins.
Saga greifanna byrjaði í raun 1986 í Músiktilraunum en þá sigraði sveitin keppnina, þá með Felix Bergsson sem söngvara sveitarinnar.
„Okkur vantaði Lead söngvara eða frontara og við fundum Felix Bergsson í Versló. Það var svolítið punkturinn yfir i-ið á sínum tíma,“ rifjaði Viddi upp við þá Þór Bæring og Valtýr Björn í þættinum. Þeir rifjuðu upp hversu hratt sveitin varð vinsæl á þessum tíma.
Upphafið má þó rekja til Barnaskólans Húsavík þar sem pabbi Vidda vann sem húsvörður um tíma. Sveitin fékk því að nýta sér aðstöðuna til æfinga.
Aðspurðir um eftirminnilegustu útihátíðina rifjuðu félagarnir upp þjóðhátíð 1988:
„Við höfum verið á mörgum þjóðhátíðum en ég skil ekki hvernig okkur datt þetta í hug. Við verðum að athuga það að Felix er nýhættur. Samt erum við ráðnir þarna, eina hljómsveitin og við erum bara fjórir. Að vera þarna á sviðinu í fimm-sex klukkutíma á hverju einasta kvöldi,“ sagði Viddi.
„Ég man ég eyddi mjög miklum tíma í sturtu. Bara til þess að halda röddinni. Ég var í sturtunni og lét bara renna ofan í mig. Þetta gerði ég í marga, marga klukkutíma þessa helgi. Ég svaf í sólarhring eftir helgina. Ég fór í sumarbústað, keyrði út úr bænum og svaf meira og minna í sólarhring. Með smá pissustoppum,“ sagði Bjössi kíminn.
Þeir rifjuðu jafnframt um hvernig þeir mættu í nýjum og nýjum dimmiteringarbúningum sem þeir höfðu keypt af menntaskólakrökkum en þeir mættu meðal annars sem teiknimyndafígúran Gormur og ofturhetjan Kafteinn Kokteill á sviðið í Eyjum.
„Gormur var með svona langt skott. Svo missti einhver skottið inn í mannfjöldann – og það var vesen!“ sögðu félagarnir.
Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Greifana í heild sinni en í lokin má heyra þá taka viðeigandi lag fyrir Verslunarmannahelgina, lagið Útihátíð í lifandi flutningi.
| Klara Einars gerir sig klára fyrir jólin (7.11.2025) — 00:05:56 | |
| Hvað vissir þú ekki um hitt kynið áður en sambúð hófst? (7.11.2025) — 00:05:53 | |
| Segir þú makanum hvað varan kostaði? (7.11.2025) — 00:02:48 | |
| Gugga Lísa - Engillinn minn (6.11.2025) — 00:04:56 |