Að þessu þarf að huga í eldvörnum fyrir hátíðarnar

Það þarf að passa vel upp á eldvarnir um hátíðarnar …
Það þarf að passa vel upp á eldvarnir um hátíðarnar sem og auðvitað allan ársins hring. Colourbox.

Það skiptir máli að hafa alla eldvarnir í lagi þegar desember með öllu tilheyrandi ljósa-,  skeytinga- og eldhússtússi, fer að nálgast – sem og alla aðra mánuði auðvitað, eins og Jón Pétursson hjá Öryggismiðstöðinni benti á í viðtali í Ísland vaknar á K100 í gær.

Hann fór yfir eldvarnir í þættinum og benti á nokkur gagnleg ráð sem er gott að hafa í huga í sambandi við þær. 

  • Laskaðar hleðslusnúrur geta valdið bruna. Þegar skermurinn er farinn að skemmast í hleðslusnúrum, til dæmis fyrir síma, geta þær myndað hita og kveikt í.
  • Skipta að minnsta kosti árlega um rafhlöður í reykskynjurum. „Það er mjög gott að miða við aðventu,“ sagði Jón en hann benti á að ef þetta er ekki gert byrjar skynjarinn að pípa til að minna á sig og það geti gerst um miðja nótt með tilheyrandi látum og stressi.
  • Slökkvitæki eiga að vera í flóttaleiðum og aðgengi gott að þeim. Þau eiga að vera rauð og með leiðbeiningum og þarf að yfirfara þau reglulega.
  • Ekki skilja þvottvélina og/eða þurrkara sem og önnur raftæki í gangi þegar húsið er mannlaust. 
  • Skynjarar eiga að vera í miðju lofti. Jón benti á að ef fólk er með ris er mikilvægt að setja skynjarann alls ekki í efsta punkt. „Vegna þess að á fyrstu mínútum í eldsvoða er mótstaða í hornum. Þannig að reykurinn fer ekki þar upp. Þannig að þá missum við þessar fyrstu og bestu mínútur sem við höfum til að bregðast við,“ sagði hann. 
  • Lesa leiðbeiningar. Það er lykilatriði að lesa leiðbeiningar með hlutum sem við eigum, sagði Jón.

Annað sem mikilvægt er að hafa í huga er að vera með eldvarnarteppi á vísum stað á heimilinu. Passa vel upp á kerti og nota til dæmis frekar rafmagnskerti yfir hátíðarnar og huga vel að börnum í kringum kertaljós og skreytingar.

Smávægileg mistök eins og að nota laskaða símahleðslusnúru getur valdið …
Smávægileg mistök eins og að nota laskaða símahleðslusnúru getur valdið bruna. Það er því mikilvægt að fara yfir eldvarnir á heimilinu. AFP

Sjáðu allt viðtalið við Jón Pétursson ræða um eldvarnir í Ísland vaknar en hann bendir á að hægt er að panta brunavarnarráðgjöf á vefsíðu Öryggismiðstöðvarinnar. 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist