Tíu lög til að hlusta á í jarðskjálftunum

Ljósmynd/Samsett

Á útvarpsstöðinni Retro er slegið á létta strengi þegar jarðskjálftar ganga yfir suðvesturhorn landsins. Dagskrárgerðarmenn stöðvarinnar tóku saman tíu bestu lög allra tíma sem tengja má við jarðhræringar með einum eða öðrum hætti.

Hvers vegna varst' ekki kyrr – Pálmi Gunnarsson

Viðlag þessa lags er örugglega ekki samið með jarðhræringar í huga en það þarf samt ekki fjörut ímyndunarafl til að hugsa sér það. Lag og texti er eftir Jóhann G. Jóhannsson en lagið kom út á sólóplötu Pálma Gunnarssonar, Þorparanum, 1979. 

5 á Richter – Nylon

„Tjónið var svo mikið því þú ert fimm á Richter,“ syngur söngvasveitin Nylon í lagi Einars Bárðarsonar frá 2007.

You Shook Me All Night Long – AC/DC

Áströlsku harðhausarnir í rafmögnuðu þrususveitinni AC/DC hrista upp í liðinu með jarðskjálftalagi sínu sem kom út árið 1980.

I Feel the Earth Move – Carole King

Carole King samdi þetta jarðskjálftalag sem kom út á plötunni Tapestry árið 1971. Platan er almennt talin á meðal meistaraverka poppsögunnar sem enn þykir hljóma vel í dag.

Shake, Rattle & Roll – Big Joe Turner

Í úttekt bandaríska tónlistartímaritsins Rolling Stone varð jarðskjálftalag Big Joes Turners í 127. sæti yfir 500 bestu lög allra tíma.

Ég veit þú spáir eldgosi – SSSól

Níu árum áður en gosið hófst í Eyjafjallajökli árið 2010 spáði hljómsveitin SSSól, með Helga Björns fremstan í flokki, eldgosi. Þetta er geggjað jarðhræringalag sem nálgast má á Spotify:

Shake it Up – The Cars

Jarðskjálftalag bandarísku sveitarinnar The Cars sem tyllti sér í annað sæti Billboard-vinsældalistans árið 1982.

Hippy Hippy Shakes – The Swinging Blue Jeans

Chan Romero samdi og flutti þetta skemmtilega jarðskjálftalag árið 1959. Strákarnir í bresku bítlahljómsveitinni Swinging Blue Jeans gerðu það frægt árið 1963 en sjálfir Bítlarnir tóku það líka á tónleikum og finna má upptöku þeirra af því á plötunni On Air – Live at the BBC.

All Shook Up – Elvis Presley

Auðvitað er Elvis Presley-lag á jarðhræringalagalistanum. Sumir myndu reyndar segja að landrek hafi orðið þegar Elli Prelli sveiflaði mjöðmunum.

Hossa Hossa – AmabAdamA

Reggísveitin AmabAdamA á topplag íslenska jarðhræringalistans með laginu Hossa Hossa. Lagið kom út á plötunni Heyrðu mig nú árið 2014 og er einkar viðeigandi á þessum jarðskjálftatímum.



mbl.is