22 ár síðan Angels var valið besta lag ársins

Robbie Williams.
Robbie Williams. mbl.is/AFP

Við rjúfum hér skipulagða dagskrá og tökum andartak til að minnast þess að tíminn æðir áfram. Svo vitnað sé í heimspekinginn Ferris Bueller þá gerist lífið á ógnarhraða. Ef þú stoppar ekki og svipast um í kringum þig endrum og eins gætirðu misst af því.

Í dag, 16. febrúar, eru nákvæmlega 22 ár síðan Robbie Williams hlaut þrenn verðlaun á Brit-hátíðinni í Bretlandi. Lagið Angels var valið besta lag ársins, hann var valinn besti söngvari ársins og myndband við lag hans Millennium valið það besta.

Lagið kom út tveimur árum áður, 1997, á plötu Williams sem bar heitið Life thru a Lens. Árið 2005 var gerð skoðanakönnun í Bretlandi þar sem spurt var hvaða lag Bretar vildu helst að yrði leikið í útför sinni. Langflestir völdu lagið Angels með Robbie Williams.

mbl.is