Tíu bestu ástarlög allra tíma

George Michael er ofarlega á listanum yfir bestu ástarlög allra …
George Michael er ofarlega á listanum yfir bestu ástarlög allra tíma með lag sitt Careless Whisper.

Ástarlögin fá að hljóma sem hæst á útvarpsstöðinni Retro í dag á sjálfum Valentínusardegi. Hér eru topp tíu ómissandi ástarlög sem starfsmenn stöðvarinnar hafa valið með mjög óvísindalegum hætti.

10. Tvær stjörnur – Megas

Margir listamenn hafa flutt þetta einstaka lag í gegnum tíðina. Jóhanna Guðrún og Davíð Sigurgeirsson gerðu því afar góð skil nýverið:

9. Careless Whisper – George Michael

Kærulaust hvísl George Michael hefur örlagaríkar afleiðingar í för með sér í þessari tímalausu snilld. Lagið samdi hann aðeins 17 ára með Andrew Ridgeley, vini sínum í Wham.

8. Með þér – Bubbi Morthens

Sérðu ekki við fæddumst til að standa hlið við hlið
Og halda út á veginn saman og líta aldrei við

Bubbi Morthens samdi og flutti óaðfinnanlega en hér er Ragnheiður Gröndal með sína tímalausu útgáfu.

7. Unchained Melody - Righteous Brothers

Hugurinn reikar til náinnar stundar við leirkerasmíð úr kvikmyndinni Ghost þegar þetta lag hljómar á öldum ljósvakans. Bobby Hatfield flytur þetta eins og engill.

6. Winner Takes It All - ABBA

Ástin er alls konar og það er hægt að skilja í góðum fíling. Björn Ulvaeus hefur harðneitað að þetta lag fjalli um skilnað hans og Agnetu Fältskog, söngkonu ABBA. Hann vill frekar meina að lagið fjalli almennt um aðskilnað elskenda og hafi ekkert með persónulega reynslu þeirra tveggja að segja. Björn fékk fyrrverandi konu sína, Agnetu til að syngja lagið. Það hlýtur að hafa verið sérstök stund en hún hefur síðar upplýst að lagið sé í sérstöku eftirlæti hjá sér.

5. God Only Knows – The Beach Boys

Lagið kom út árið 1966 á meistaraverkinu Pet Sounds þar sem Brian Wilson var allt í öllu sem lagahöfundur og útsetjari. God Only Knows er eitt af perlum dægurtónlistar og sannkallað meistaraverk. Hin sturlaða staðreynd er þó sú að lagið náði aldrei hærra en 39. sæti á vinsældarlistum vestanhafs.  

4. Ég fann þig – Björgvin Halldórsson

Björgvin Halldórsson syngur eitt fallegasta ástarlag allra tíma. Textinn er eftir Jón Sigurðsson en lagið er amerískt þjóðlag. Það þekkja allir útgáfu Björgvins af þessu frábæra lagi. Karlakórinn Esja flutti það á tónleikum fyrir nokkrum árum og gerði lagið að sínu. Takið eftir ónefndum umsjónarmanni í Kastljósi Ríkissjónvarpsins þenja þarna raddböndin, ofarlega fyrir miðju.

3. Ó hvílíkt frelsi – Páll Óskar og Monika

Páll Óskar Hjálmtýsson og Monika Abendroth fluttu þetta hugljúfa lag á plötunni Ef ég sofna ekki í nótt sem kom út 2002.

2. I Want To Know What Love Is – Foreigner

Ógleymanleg ballaða sem hæfir leitandi hjörtum. Gary Barlow fékk Kelly Hansen, söngvara Foreigner, til að syngja þetta með sér, hvor úr sínu heimastúdíóinu um daginn.  

1. Ást

Ragnheiður Gröndal syngur langbesta ástarlag allra tíma. Lagið samdi Magnús Þór Sigmundsson við texta Sigurðar Nordal.


Retro spilar lögin sem þú þekkir allan sólarhringinn. Retro sendir út á FM 89.5 á höfuðborgarsvæðinu, FM 101,9 á Ak­ur­eyri og á net­inu á www.retro895.is.

mbl.is