Fimm vinsælustu lög The Supremes

The Supremes í syngjandi sveiflu hjá Ed Sullivan 1966.
The Supremes í syngjandi sveiflu hjá Ed Sullivan 1966. Skjáskot/Youtube

Aðdáendur The Supremes syrgja nú andlát Mary Wilson söngkonu, sem stofnaði sveitina í bílaborginni Detroit með vinkonum sínum aðeins 15 ára að aldri. Tilkynnt var um andlát hennar í dag en dánarorsök var ekki gefin upp. Hún var 76 ára að aldri.

Þær Mary Wilson, Florence Ballard, Diana Ross og Betty McGlown skipuðu upprunalega útgáfu sveitarinnar. Þær kölluðu sig The Primettes og byrjuðu að koma fram sem upphitunaratriði fyrir The Primes en í þeirri sveit voru þeir Paul Williams og Eddie Kendrics sem síðar stofnuðu hljómsveitina Temptations.

Tíðar mannabreytingar

Saga Supremes einkennist af tíðum inná- og útafskiptingum söngkvenna. Fyrst var Betty McGlown skipt út fyrir söngkonuna Barböru Martin árið 1960. Ári síðar skrifaði sveitin undir útgáfusamning við Motown en þá undir nafninu The Supremes.

Martin yfirgaf sveitina árið 1962 og þær Ross, Ballard og Wilson héldu áfram sem tríó. Berry Gordy, stofnandi Motown, endurskírði sveitina árið 1967 sem Diana Ross & the Supremes og skipti þá út Florence Ballard fyrir söngkonuna Cindy Birdsong.

Diana Ross yfirgaf Supremes árið 1970 til að einbeita sér að sólóferli og í hennar stað kom söngkonan Jean Terrell. Eftir einhverjar mannabreytingar í viðbót lagði sveitin loks upp laupana árið 1977.

Í tilefni fráfalls Mary Wilson eru hér fimm vinsælustu lög The Supremes sem Smooth Radio listar upp, sem hlustendur Retro kunna vafalaust að meta.

1. Stop in the name of love

Hver hefur ekki dansað „Stop“-dansinn fræga með stelpunum? Lagið fór rakleiðis á toppinn í Bandaríkjunum í mars 1967.

2. Baby love

Þetta sígilda popplag fór á toppinn samtímis í Bretlandi og Bandaríkjunum undir lok 1964. Þær Mary Wilson taka „baby baby“ í bakröddunum en Diana Ross á „ooohh“-ið í upphafi ásamt því að leiða sönginn eins og oftast.   

 3. Where did our love go

Fyrsta topplag The Supremes vestanhafs frá 1964. Lagið var samið og framleitt af Lamont Dozier og bræðrunum Brian og Eddie Holland sem saman mynduðu framleiðsluteymið Holland-Dozier-Holland. Eftir þá liggur ógrynni laga sem skilgreindi hinn eina sanna Motown-hljóm. Lagið er sagt fanga andrúmsloftið sem ríkti í bandarísku samfélagi eftir morðið á John F. Kennedy Bandaríkjaforseta, kynþáttaóeirðir og vaxandi spennu.

4. You Can't Hurry Love

Annað lag úr smiðju Holland-Dozier-Holland-teymisins sem smellti sér á toppinn í Bandaríkjunum 1966. Örfáum árum síðar tók Phil Collins lagið upp á sína arma. Hans útgáfa af laginu náði á toppinn í Bretlandi 1983.

5. You Keep Me Hanging On

Enn einn smellurinn frá Holland-Dozier-Holland-teyminu sem fór einnig á toppinn vestanhafs 1966. Takið eftir gítarstefinu í upphafi lagsins. Hugmyndin að því er sögð komin frá mors-stefi sem oft var leikið í upphafi fréttatíma útvarpsstöðva á þessum árum.
Vanilla Fudge, Kim Wilde og Reba McEntire eru á meðal þeirra listamanna sem flutt hafa ábreiðu af laginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina