Gagnrýni Árna slátraði Deacon Blue

Árni Matt var ekki hrifinn af Ricky Ross og hljómsveitinni …
Árni Matt var ekki hrifinn af Ricky Ross og hljómsveitinni Deacon Blue í beittum dómi um sveitina 1987. Mynd: Skjáskot K100 og Youtube.com

Óhætt er að segja tónlistargagnrýni Árna Matt á rokksíðu Morgunblaðsins í ágúst 1987 hafi slátrað skosku hljómsveitinni Deacon Blue. Hljómsveitin hefur átt nokkra smelli í gegnum árin sem fengið hafa að hljóma m.a. hjá okkur á útvarpsstöðinni Retro. Þetta eru lög eins Real Gone Kid og When Will You (Make My Telephone Ring). Plata sveitarinnar Raintown átti þó ekki upp á pallborðið hjá Árna sem afgreiddi hana með eftirfarandi hætti:

Tilgerð og rómantík

„Þegar breska hljómsveitin Prefab Sprout sendi frá sér plötuna Steve McQueen héldu tónlistargagnrýnendur vart vatni af hrifningu. Undirrituðum þótti hljómsveitin sú aldrei nema í slöku meðallagi og þá einkum fyrir yfirþyrmandi tilgerð. Því telst það ekki góð meðmæli, að mínu mati, þegar hljómsveit er líkt við Prefab Sprout eins og gert hefur verið með bresku hljómsveitina Deacon Blue. Hún á það þó inni og platan Raintown sem nýlega er komin út er mjög í sama fari tilgerðar og gelgjulegrar rómantikur og Steve McQueen með Prefab Sprout. Aðdáendur Prefab Sprout geta því glaðst en aðrir hljóta að bíða einhvers betra frá Deacon Blue.“

Eftir þessa beittu gagnrýni Árna Matthíassonar hefur varla heyrst hósti né stuna frá skosku sveitinni, ekki frekar en frá hljómsveitinni Prefab Sprout sem sumir segja að hafi toppað sig snemma.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist