Tímavélin: Þegar Brunaliðið hætti að reykja

Magnús Kjartansson, Ragnheiður Gísladóttir og Pálmi Gunnarsson úr Brunaliðinu tóku …
Magnús Kjartansson, Ragnheiður Gísladóttir og Pálmi Gunnarsson úr Brunaliðinu tóku þátt í átaksverkefni gegn reykingum árið 1978. Mynd úr Ljósmyndasafni Ólafs K. Magnússonar/Morgunblaðsins. Ól.K.M.

Tímavél Retro flytur okkur til ársins 1978 en þá um sumarið naut hljómsveitin Brunaliðið gríðarlegra vinsælda. Vefsíðan Glatkistan kemst þannig að orði um sveitina að Brunaliðið hafi verið allt í senn: „... ein vinsælasta, afkastamesta og sukksamasta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu en hún skartaði nokkrum af skærustu poppstjörnum landsins á því tæplega tveggja ára skeiði sem hún starfaði.“

Í Morgunblaðinu sunnudaginn 28. júlí 1978 birtist frétt um að hljómsveitin hefði efnt til blaðamannafundar ásamt Samstarfsnefnd um reykingavarnir. Tekið var fram að allir öskubakkar hefðu verið ónotaðir á fundinum. Tilefnið var sígarettubölið og útgáfa veggspjalds með mynd af Brunaliðinu og áletruninni „Við viljum reyklaust land“.

Baráttan gegn sígarettureykingum landsmanna hafði gengið ágætlega þegar þarna var komið en tóbakssala hafði dregist saman um heil 33 tonn á milli áranna 1977 og '78. Brunaliðsmenn kváðust á blaðamannafundinum allir mjög fylgjandi þessari baráttu, enda reykti enginn lengur í hljómsveitinni og meira að segja væri einu lagi á næstu hljómplötu hljómsveitarinnar sérstaklega beint gegn reykingum. Veggspjaldið af Brunaliðinu var hægt að fá í hljómplötuverslunum um land allt en auk þess á skrifstofu Krabbameinsfélagsins og hjá samstarfsnefndinni um reykingavarnir.  

Man óljóst eftir þessu

Pálma Gunnarsson, söngvara og bassaleikara Brunaliðsins á þessum árum, rámaði eitthvað í þetta þegar Retro sló á þráðinn til hans um þessa gömlu frétt. „Ef ég man rétt þá var þetta átaksverkefni hjá Krabbameinsfélaginu. Það var verið að fá fólk til þess að reykja ekki og Brunaliðið var súperheitt band á þessum tíma. Líklega var talað við Jón Ólafsson og hann beðinn að setja okkur í þetta. Við vorum ekki öll reyklaus þannig að það þurfti aðeins að skoða það. Stelpurnar í bandinu voru þó örugglega alveg „clean“. Gott málefni og ef ég man rétt þá var tekin ákvörðun um það að bakka þetta verkefni upp.“

Þið voruð þá flest reyklaus?

„Já, mig minnir að við værum það flest þarna á þessum tíma. Ég var þó ekki reyklaus þannig að ég syndgaði. Ruth Reginalds söng þarna lagið Tóm tjara, sem lifað hefur með þjóðinni. Hún var þarna ungstirni og reyklaus ásamt stelpunum í hljómsveitinni þannig að við vorum alveg gjaldgeng í þessa áróðursherferð. Það var reyndar nokkrum áratugum seinna sem ég sjálfur hætti alveg að reykja. Kannski hefur þetta haft áhrif á það.“


 

mbl.is