Bríet og Valdimar eru jólastjörnur

Baggalútur, Valdimar Guðmundsson og Bríet sendu frá sér nýtt jólalag um helgina en lagið var frumflutt í fyrsta þætti af Kósíheitum í Hveradölum sem sýndur var á RÚV á laugardagskvöld.

Lagið svo og textinn er eftir Braga Valdimar Skúlason og er nú komið út á Spotify og aðrar streymisveitur.

Kósíheit í Hveradölum verður á dagskrá RÚV á laugardagskvöldum í desember. Í þættinum fá meðlimir Baggalúts góða gesti í heimsókn sem flytja gömul og ný jólalög sem koma landsmönnum í sannkallaðan „jólafíling“.

Baggalútur  Kveðju skilað

Þetta er þó ekki það eina sem þeir Baggalútsmenn eru að bralla þessa dagana en þeir sendu nýlega frá sér plötu. Platan heitir Kveðju skilað og inniheldur ný lög eftir Braga Valdimar Skúlason við vísur og kvæði vesturíslenska skáldsins Káins (1860-1936).

Kveðju skilað er komin út á streymisveitum og á geisladiski en hún verður einnig fáanleg á vínilútgáfu 15. desember. Mun hún auk nýju laganna innihalda valin lög af hljómplötunni Sólskininu í Dakota, sem kom út á geisladiski árið 2009.

Þú getur hlustað á nýja lagið frá Baggalúti, Bríeti og Valdimar á Spotify. 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist