Sykurlaus jóla eftirréttur að hætti Hönnu

Ljósmynd: Hanna Þóra Helgadóttir

Hanna Þóra Helgadóttir hefur tileinkað sér ketóvænt mataræði í rúmlega tvö ár og segist aldrei hafa liðið betur. Hún heldur úti heimasíðu þar sem hún setur reglulega inn góðar og girnilegar uppskriftir sem henta þeim sem lifa sykurlausu lífi eða eru alfarið á ketó.

Hanna hefur lengi prófað sig áfram í eldhúsinu og lumar á mörgum góðum uppskriftum en ásamt því að halda úti síðunni er Hanna að gefa út sína fyrstu bók núna fyrir jólin sem ber nafnið KETÓ – Hugmyndir – Uppskriftir – Skipulag.

„Bókin fékk gífurlegar viðtökur í forsölu og er væntanleg í verslanir um helgina. Það er ótrúlega gaman að sjá viðtökurnar þegar svona gamlir draumar fá að verða að veruleika,“ segir Hanna í samtali við blaðamann.

Ljósmynd: Hanna Þóra/Instagram

Þeir sem hafa áhyggjur af því að geta ekki borðað góðan sykurlausan eftirrétt um jólin ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hjá Hönnu sem gaf JólaRetró góðfúslegt leyfi til þess að birta uppskrift af Ostakökumús með súkkulaði.

Ostakökumús með súkkulaði sem svíkur engan

Súkkulaðismyrjan er fullkomin ofaná vöfflur eða hituð lítilega og notuð sem heit íssósa ofaná góðan ís.

Súkkulaðismyrjan ( Magn fyrir heila fjölskyldu)

  • 250 ml Rjómi
  • 1 stk. Súkkulaðiplata sykurlaus (td milk chocolate frá Nicks)
  • 3 msk Ketóvænt gyllt sýróp

Ostakakan ( magn fyrir 2-4 )

  • 1 stk. Mascapone frá MS
  • 2 tsk. Vanilludropar
  • 1 msk Ketóvænt gyllt sýróp

Setjið allt sem þarf í súkkulaðismyrjuna í lítinn pott og hitið á miðlungs hita þar til allt súkkulaðið er bráðnað og sósan farin að þykkna.
Kælið í ísskáp þar sem hún þykknar.

Setjið innihaldið úr einni mascapone dós í hrærivél og þeytið vel ásamt sýrópi og vanilludropum.

Bætið við 1 og hálfum dl af smyrjunni útí og þeytið þar til allt er vel blandað og silkimjúkt.

Sprautið blöndunni í falleg glös og geymið í kæli þar til tími er kominn á góðan eftirrétt.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist