Selma fékk son sinn í hendurnar tveggja ára gamlan og samdi lag um sameininguna

Selma, Steinn og Martin Már sameinuðust þegar sonurinn var tveggja …
Selma, Steinn og Martin Már sameinuðust þegar sonurinn var tveggja ára gamall en hann er í dag 7 ára, brosmildur og lífsglaður skólastrákur.

Hjónin Selma Hafsteinsdóttir og Steinn Stefánsson fengu son sinn, Martin Má í hendurnar þegar hann var tveggja ára gamall eftir langa bið en Selma segir að fjölskylda hennar hafi alltaf átt að sameinast með þessum hætti.

Selma, sem er í tveimur hljómsveitum, Tónafljóði og Bergmál bandi, samdi gullfallegt lag um ættleiðinguna, móðurástina og um ástina sem bindur fjölskyldu hennar saman, lagið Heim sem var frumflutt í Ísland vaknar á K100 í gær. Þar ræddi hún um ferlið sem leiddi fjölskylduna saman og um nýja lagið en með því er myndband þar sem má sjá mikilvæg augnablik í lífi fjölskyldunnar. Myndbandið má sjá neðar í fréttinni.

Hér má sjá fallega augnablikið sem Selma og Steinn hittu …
Hér má sjá fallega augnablikið sem Selma og Steinn hittu son sinn í fyrsta skipti. Selma lýsir hvernig hann labbaði löturhægt og feiminn til þeirra en þau hjónin höfðu keypt handa honum gröfu. Steini gat ekki hamið tárin en Selma segist hafa reynt eftir bestu getu að „halda kúlinu“. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldan átti fimm ára fjölskylduafmæli á dögunum en þau ættleiddu Martin árið 2016. Hann er nú sjö ára gamall lífsglaður og brosmildur drengur sem verður 8 ára í nóvember. 

Löng og ströng bið eftir barni

Eftir margra ára baráttu við ófrjósemi og margar misheppnaðar tæknifrjóvganir ákváðu hjónin að hefja ættleiðingarferli sem leiddi til þeirrar gæfu sem þau njóta í dag en Martin fæddist á Tékklandi árið 2014. Sagði Selma að ákvörðunin um að ættleiða hafi tekið „fimmþúsund kíló af bakinu“ á henni.

„Mér fannst ég vera bara frelsuð,“ sagði Selma. „Maður var svo mikið að syrgja. Maður var alltaf missa og alltaf allt misheppnað hjá manni einhvern veginn. Það var einhvern veginn ekkert að ganga upp. Maður þráði barn svo ógeðslega mikið. Svo fór maður í þetta og ég bara: Vá. Þetta er leiðin fyrir mig,“ sagði hún en hún bætti við að það skrítnasta við þetta allt væri það að hún hafði í raun óafvitandi spáð fyrir um þessa leið fjölskyldunnar.

Átti alltaf að verða

„Þegar ég var 18 ára, sagði ég þetta við Steina, þegar við vorum nýbyrjuð saman: Ég held að við munum ættleiða barn,“ útskýrði Selma sem þó pældi ekki meira í þessum orðum sínum fyrr en þau voru á leið í ferlið. „Ég fæ bara svona hroll. Þetta var bara alltaf „meant to be“.

„Það tók okkur þrjú ár í heildina. Umsóknarferlið tók eitt og hálft ár. Svo biðum við eftir barninu í eitt og hálft ár. Þannig að meðganga mín var eitt og hálft. En í rauninni var getnaðurinn svolítið langur,“ sagði Selma sem ræddi um málið í Ísland vaknar. 

Lýsti hún því þegar hún fékk símtalið um að hún gæti átt von á barni en hún segir það hafa verið eitt af dramatískustu mómentum lífs síns.

„Þú veist ekkert hvenær þú átt von á símtali. Ég var að vinna á leikskóla á þessum tíma. Þetta var eitt af dramatískustu mómentum lífs míns. Ég var með samverustund og var ekkert að svara í símann þannig að það er hringt í vinnusímann,“ sagði Selma sem segist hafa verið alveg grunlaus um það um hvað símtalið snerist.

Eftir þrjár til fjórar vikur frá símtalinu afdrifaríka fóru Selma og Steinn til Tékklands að sækja son sinn.

„Einstakt móment“

„Það var bara einstakt móment og lagið sem ég er að gefa út, myndbandið er bara að sýna myndbönd frá þessum mómentum,“ sagði Selma.

Myndbandið við lagið Heim má sjá hér að neðan.

 

 Hlusta má á viðtalið við Selmu í heild sinni ofar í fréttinni. Lagið Heim verður aðgengilegt á helstu streymisveitum 16. janúar.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir