Pale Moon með nýtt lag  – „Þægilegra að grínast og vera með trúðslæti“

Hljómsveitin Pale Moon gaf út lagið Clown í dag.
Hljómsveitin Pale Moon gaf út lagið Clown í dag.

Indítvíeikið Pale Moon hefur í dag gefið út sína nýjustu smáskífu „Clown“. Er um að ræða sjötta lagið af væntanlegri breiðskífu hljómsveitarinnar sem kemur út síðar á þessu ári.

Pale Moon samanstendur af þeim Nataliu Sushchenko sem er fædd og uppalin í litlum námubæ í miðri Síberíu og Árna Guðjónssyni Garðbæingi en þau kynntust á Spáni þar sem hljómsveitin varð til að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Samkvæmt Árna er „Clown” sérstætt lag fyrir bandið. Tónsmíðin er ein sú framsæknasta og tilraunagjarnasta sem þau hafa leyft sér hingað til. Dáleiðandi brotnu gítarhljómarnir í upphafi lags, seyðandi rödd Nata, draumkenndar áferðir og samhljómurinn eru sem vefnaður af hljóðum sem ofin eru saman í hlýtt og notalegt hljóð-teppi.

Pale Moon.
Pale Moon.

Notum grín oft sem skjöld

Fyrsta uppkastið af laginu var innblásið af hljómsveitinni Doors en samkvæmt þeim Árna og Nötu er ekki er mikið eftir af þeirri útsetningu nema ákveðinn hluti. Restin er gegnsósa af þeim hljóðheimi sem Pale Moon hefur mótað sér. Í textanum kannar Nata sinn stundum afkáralega persónuleika og leið sína til að fást við lífið á oft kaldhæðnislegan og gamansaman hátt.

„Stundum finnst mér þægilegra að grínast og vera með trúðslæti frekar en að sýna mikla tilfinningasemi eða mína réttu hlið. Segja má að lagið fjalli um hvernig við notum oft grín sem skjöld í „alvarlegum” aðstæðum” segir Nata kímin.

Saman eru Nata og Árni gott teymi. Nata, sem er mikið ljóðskáld í hjarta sér, umbreytir upplifunum sínum í texta og laglínur á meðan Árni umbreytir skáldskapnum í tónlist.  

Pale Moon er ein þeirra íslensku hljómsveita sem áttu að stíga á stokk í Gröningen í Hollandi á Júrósónik tónlistarhátíðinni í Janúar en vegna kórónuveirufaraldurs var hátíðin færð alfarið yfir á netið. Pale Moon stíga á „netstokk“ Föstudaginn 21. janúar 2022, klukkan 21:00 á rás ESNS 02 sem verður aðgengileg á síðu hátíðarinnar esns.nl.

Hlusta má á lagið „Clown“ á Spotify og öðrum streymisveitum sem og hér að neðan. 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir