Facebookgrín Arnars olli bráðfyndnum misskilningi

Myndin umtalaða sem olli miklum misskilningi. Hér má sjá Arnar …
Myndin umtalaða sem olli miklum misskilningi. Hér má sjá Arnar ásamt kærustu sinni Michelle á sushi-námskeiði en ekki kynningu á nýjum matreiðsluþætti. Facebook

Fjölskylda og vinir Boot Camp þjálfarans Arnars Ragnarssonar ráku upp stór augu þegar hann tilkynnti það á Facebook, með fallegri mynd af sér og kærustu sinni Michele, þar sem þau rétta fram girnilega sushi-rétti, að nýir matreiðsluþættir, Sushieldhúsið, væru að hefja göngu sína á Stöð 2. 

Hamingjuóskum rigndi inn á síðu hans í kjölfarið og hefur hann jafnvel fengið atvinnutilboð eftir að hann birti færsluna um síðustu helgi.

Það fyndna er að færslan átti upphaflega að vera góðlátlegt grín og bjóst Arnar ekki við að hún fengi þau viðbrögð sem hún fékk enda segist hann vera „gjörsamlega handónýtur í eldhúsinu“.

Eva Ruza, húmoristi og stjörnufréttakona var ein af þeim sem kolféll fyrir tilkynningu Arnars en hún ætlaði að fá að ræða við Arnar um nýja þáttinn í Síðdegisþættinum með Sigga Gunnars. Þess í stað ræddu þau við Arnar um þennan skemmtilega misskilning.

Sagði Arnar frá því hvernig kærasta hans, Michele, hefði skipulagt stefnumótadag fyrir þau sem endaði á Sushi-námskeiði. Þar hafi myndin verið tekin.

„Um leið og ég sé myndina hugsa ég með mér: Það er bara eins og við séum að fara að byrja með sushiþátt, og ákvað að skella þessu sem svona léttu gríni inn á facebooksíðuna.

Vatt aldeilis upp á sig

Þetta fær bara það mikil viðbrögð að eftir tæpa tvo klukkutíma voru svo margir búnir að kommenta undir og óska mér til hamingju að ég hafði það ekki í mér að halda þessu gríni áfram. Þannig að ég segi þeim að þetta sé grín í kommentunum fyrir neðan. En meira að segja í gær var ég að fá atvinnutilboð um að elda sushi einhvers staðar. Þannig að þetta hefur aldeilis undið upp á sig,“ sagði Arnar í þættinum.

„Það fyndnasta við þetta er að ég kann ekkert að elda. Ég fer ennþá í mat til mömmu tvisvar til þrisvar í viku og er gjörsamlega handónýtur í eldhúsinu,“ bætti hann við en hann segir að margir hafi trúað því að hann hefði eldamennskuna í blóðinu enda er Eva Laufey, matreiðslusnillingur, náskyld honum en þau eru systkinabörn. 

Viðtalið við Arnar má heyra í heild sinni hér að ofan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir