Sló í gegn sem barn en er bara rétt að byrja

Baldur hefur tekið sín fyrstu skref í tónlistarbransanum en hann …
Baldur hefur tekið sín fyrstu skref í tónlistarbransanum en hann gaf út lagið Soon á dögunum. Lagið er rómantískt og fullt af tilfinningum enda samið um og til kærustu Baldurs, Freyju Sofie Gunnarsdóttur, og lýsir ást hans á henni.

Baldur Einarsson sló í gegn sem barn fyrir hlutverk sitt sem Þór í Hjartasteini en hann hefur margt á prjónunum í dag, hefur stigið sín fyrstu skref í tónlistarbransanum og gefið út sitt fyrsta lag, lagið soon.

Hinn 19 ára Baldur Einarsson er virkilega fjölhæfur ungur maður sem hefur mikið fyrir stafni. Hann sló svo sannarlega í gegn í kvikmyndinni Hjartasteini sem kom út árið 2016 en þar lék hann unglingsstrákinn Þór, aðra aðalpersónu myndarinnar. Baldur segir í samtali við Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum að tökur á myndinni séu enn þann dag í dag eitt það skemmtilegasta sem hann hefur gert í lífinu.

Segist hann langt því frá búinn að leggja leikarastarfið á hilluna en hann hefur þó leitað á önnur mið líka því hann gaf út sitt fyrsta lag undir listamannsnafninu BaraBaldur á dögunum. Hann stundar nú nám meðfram bæði leiklistinni og tónlistinni en hann lærir að beita sér á bak við myndavélina í kvikmyndatækni í Tækniskólanum. Þá lék hann í þáttunum Vitjunum sem verða sýndir á RÚV um páskana.

Baldur er afar fjölhæfur en hann er bæði leikari, tónlistarmaður …
Baldur er afar fjölhæfur en hann er bæði leikari, tónlistarmaður og stundar nú nám í kvikmyndatækni í Tækniskólanum og unir sér vel. Ljósmynd/Margrét Einarsdóttir

Baldur ræddi um öll járnin í eldinum í Síðdegisþættinum og í samtali við Morgunblaðið.

Hjartasteinn, undir leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar, vakti gríðarlega athygli og sópaði til sín verðlaunum eftir frumsýningu og vann meðal annars tugi alþjóðlegra verðlauna. Spurður út í það í Síðdegisþættinum hvernig var að taka þátt í myndinni, sagðist Baldur í raun hafa byrjað að vinna að myndinni 12 ára gamall en hann er fæddur árið 2002. 

„Það skemmtilegasta sem ég hef gert“

„Þetta var 2015 – upptökutímabilið. Við tókum held ég sex, sjö, átta mánaða æfingatímabil fyrir þetta. Þannig að þessi hjartasteinsupplifun byrjaði eiginlega 2014, þegar ég var 12 ára,“ sagði Baldur.

„Þetta var örugglega það skemmtilegasta sem ég hef gert í lífi mínu. Og er enn þá. Upplifunin á setti og „crewið“ og allir sem komu að þessari mynd voru æðislegir,“ sagði hann en Baldur ferðaðist víða um heim til að kynna myndina og taka á móti verðlaunum.

Létt kraftaverk

„Ég var náttúrulega bara 12 ára. Hafði aldrei leikið í neinu áður og hafði engan áhuga á þessu á þeim tíma. Það var eiginlega létt kraftaverk að ég fékk hlutverkið í þessari mynd,“ lýsti hann en honum var boðið í leikprufu þegar hann var með bróður sínum í auglýsingatökum.

„Leikstjórinn var þar og bauð mér að koma í prufu,“ sagði Baldur sem segist hafa verið réttur maður á réttum stað.

„Þetta var bara rosa einfalt. Ég fór í prufur, komst langt og fékk þetta svo,“ bætti hann við.

Hér má sjá Baldur Einarsson og Blæ Hinriksson í kvikmyndinni …
Hér má sjá Baldur Einarsson og Blæ Hinriksson í kvikmyndinni Hjartasteini.

Lag til kærustunnar

Lagið soon samdi Baldur til kærustu sinnar, Freyju Sofie Gunnarsdóttur en lagið fjallar um þeirra samband.

„Ég fékk þessa hugmynd út frá því hversu rétt allt var. Þetta er lag um hvernig allt gengur upp. Bara góðar hlýjar tilfinningar,“ sagði Baldur sem byrjaði að einblína á tónlistarferilinn sinn árið 2021. Bjarki Ómarsson eða Bomarz pródúseraði svo lagið.

„Ég er núna á tvítugsaldri og málið með íslenskan leiklistarferil er að það er svo lítið að gera fyrir unglinga. Þannig að ég er núna að stíga aðeins út fyrir minn þægindaramma og búa til tónlist,“ útskýrði Baldur sem segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á tónlist. Sagðist hann hafa sungið mikið frá blautu barnsbeini enda mikil tónlistarmenning á heimili hans en faðir Baldurs, Einar Örn Jónsson, er tónlistarmaður og var meðal annars hljómborðsleikari í hljómsveitinni Í svörtum fötum. Sjálfur spilar Baldur bæði á gítar og á píanó.

Lagið Soon er fyrsta lagið sem BaraBaldur gefur út og …
Lagið Soon er fyrsta lagið sem BaraBaldur gefur út og semur sjálfur en það er pródúsað af Bómarz. Hér er Baldur að vinna við að semja lagið.

Hann játaði því aðspurður að tónlistin hefði í raun legið beinna við en leiklistin.

„Það kemur mér ekki á óvart að ég gaf út lag,“ sagði Baldur sem hefur þó sungið eitt lag eftir föður sinn sem gefið var út fyrir nokkrum árum þegar hann var 16 ára gamall. Það var lagið On My Mind. Soon er þó fyrsta lagið sem Baldur semur sjálfur og gefur út.

Spurður út í það hvers vegna hann hafi ákveðið að taka upp listamannsnafnið BaraBaldur sagðist hann þakka mömmu sinni fyrir hugmyndina.

„Við fórum yfir Spotify-reikninga til að sjá hvort það væri eitthvað til sem héti Baldur og mamma mín spurði mig: Er bara Baldur til? Hún var að tala um Baldur, bara það. Og BaraBaldur vaknaði þannig, svo hef ég haldið mig við það,“ útskýrði Baldur í Síðdegisþættinum.

Nýr heimur

Baldur segist þó hvergi hættur í leiklistinni þrátt fyrir að hann sé nú farinn að búa til tónlist líka. Hann leikur til að mynda í nýjum þáttum, Vitjunum, leikstýrðum af Evu Sigurðardóttur, sem verða sýndir á RÚV um páskana á þessu ári.

Tónlistin og leiklistin er þó ekki það eina sem Baldur hefur tekið sér fyrir hendur en hann stundar nú nám í kvikmyndatækni í Tækniskólanum.

„Ég svona blanda þessu saman,“ segir Baldur í samtali við Morgunblaðið. „Ég er að læra núna hvernig er að vera fyrir aftan myndavélina. Þannig að ég er svolítið að fara inn í nýjan heim þar líka. Þannig að það er leiklistin, kvikmyndagerð og tónlistin,“ segir Baldur.

Hægt er að hlusta á lagið soon á Spotify og Youtube undir nafninu BaraBaldur og hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir