Rúrik og Jói eru á leið í þýðingarmikið ferðalag

Mágarnir Jóhannes Ásbjörnsson og Rúrik Gíslason fara til Malaví á …
Mágarnir Jóhannes Ásbjörnsson og Rúrik Gíslason fara til Malaví á morgun þar sem þeir munu heimsækja barnaþorp á vegum SOS barnaþorpanna. K100

Rúrik Gíslason, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og athafnamaðurinn Jóhannes Ásbjörnsson eða Jói munu, að öllu óbreyttu, leggja af stað í þýðingarmikið ferðalag til Malaví á morgun, föstudag. 

Mágarnir munu þar heimsækja SOS barnaþorp á Malaví og fræðast um það mikilvæga starf sem samtökin eru að starfa fyrir börn í einu vanþróaðasta og fátækasta landi í heimi og miðla reynslu sinni og ferðalaginu í sjónvarpsþætti. Munu þeir meðal annars hitta sín eigin styrktarbörn í persónu.

Yfir helmingur lifir undir fátækramörkum í Malaví.
Yfir helmingur lifir undir fátækramörkum í Malaví. af Wikipeda

Rúrik, sem er velgjörðarsendiherra SOS barnaþorpa, mætti ásamt Jóa í Síðdegisþáttinn á K100 í vikunni þar sem þeir ræddu við Sigga Gunnars og Evu Ruzu um komandi ferðalag.

Vildi gera eitthvað nýtt eftir fótboltann

„Það er mjög verðugt verkefni og við erum alltaf að reyna að vekja athygli á samtökunum. Eftir fótboltann hugsaði ég að ég væri að fara að hafa rosa mikinn tíma og langaði að prófa eitthvað algjörlega nýtt. Svo ég stakk upp á því við samtökin hvort það væri ekki gaman að gera samtökunum góð skil og hreinlega fara í svona þorp eins og þeir byggja upp í Afríkulöndum, Suður-Ameríku, Asíu og á fleiri stöðum. Sýna einfaldlega frá því hver er þessi starfsemi,“ sagði Rúrik. 

„Mikill heiður að taka þátt í þessu“

Starfsemi SOS barnaþorpa er mjög misjöfn en hún felst fyrst og fremst í því að veita heimilislausum og fátækum börnum stuðning. 

„Þau búa til heimili fyrir börn sem eiga engan samastað og gera þeim kleift að lifa þokkalega góðu lífi. Það er mikill heiður fyrir mig að taka þátt í þessu,“ sagði Rúrik. 

„Við erum að reyna að vekja athygli á þessum samtökum svo við ákváðum að selja þetta sem sjónvarpsþátt,“ sagði hann og bætti við að Síminn hefði tekið að sér verkefnið og úr verður sjónvarpsþáttur um ferðina en ekki er ljóst hvenær hann verður sýndur.

„Eiginlega bræður“

Mágarnir verða úti á Malaví í 12 daga en Rúrik segir að það hafi legið beinast við að fá Jóa með sér í verkefnið en hann sagðist ekki hafa séð fyrir sér að vera einn „að tala í kameruna“.

„Við náum vel saman og erum eiginlega bræður. Þannig að það lá beinast við að fá hann með mér í þetta – sem vanan sjónvarpsmann náttúrulega,“ sagði Rúrik glaðlega.

Jói fræddi hlustendur um ýmsar staðreyndir um Malaví, sem er, eins og áður kom fram eitt vanþróaðasta land í heimi en rúmlega 17 milljónir búa í landinu.

„Þegar maður talar um vanþróað ríki þá þarf maður svolítið að ná utan um hvað það þýðir. Svona þjóð reiðir sig nánast að mestu leyti á stuðning frá öðrum ríkjum,“ sagði Jói en hann segir að það vanti afskaplega mikið upp á í landinu.

„Fjarlægt því sem við getum ímyndað okkur“

„Þarna er meiri en helmingurinn sem lifir undir fátækramörkum. Það eru um 11% allra Malavíbúa á aldrinum 15-49 ára smituð af HIV. Þannig að það eru rúmlega 50 þúsund manns að deyja á hverju einasta ári úr HIV. Þannig að það er verið að vinna mikið í því þessa dagana.

26% barna á aldrinum 5-14 ára eru í einhvers konar þrælkunarvinnu og mörg hver í kynlífsþrælkun sem dæmi. Ástandið er svo rosalega fjarlægt því sem við getum ímyndað okkur,“ útskýrði Jói sem segir að SOS séu þó búin að vinna frábært starf í landinu og aðstoða eins og þau geta.

Fátæktin er mikil í Malaví en hér eru tvær konur …
Fátæktin er mikil í Malaví en hér eru tvær konur að ná í vatn úr brunni.

Íslendingar duglegir

„Leiðinlegasta staðreyndin í þessu er að það er bara brotabrot af þeim sem þurfa hjálp sem komast að í svona þorpum. Íslendingar samt sem áður eru afskaplega duglegir, við erum þekkt fyrir að vera gott fólk þegar kemur að svona hlutum,“ sagði Jói og benti á að Íslendingar hafi tekið að sér 9.000 styrktarbörn í 104 löndum. Flest styrktarbörnin eru á Indlandi eða yfir 750 en á Malaví eru eins og er 126 börn sem njóta stuðnings Íslendinga. 

„[Styrktar]Dóttir mín fæddist bara nokkrum dögum áður en sonur minn yngsti fæddist 2016. Hér er eitt barn sem elst upp við mikið öryggi og við þau forréttindi að vera Íslendingur. Svo á maður eftir að átta sig á því í hverju það felst að vera ekki alveg jafn heppinn,“ sagði Jói.

Mágarnir vonast til að allt gangi eftir þrátt fyrir ástandið í samfélaginu en þeir hafa þegar þurft að fresta ferðinni einu sinni vegna kórónuveirunnar. Ræddu þeir um væntingar þeirra til ferðalagsins og þeirri kvíðablönduðu spennu sem fylgdi því í Síðdegisþættinum.

Þá hvöttu þeir alla sem geta eindregið til að taka að sér styrktarbarn en það er hægt að gera inn á vefsíðu SOS barnaþorpanna fyrir litlar 3.900 krónur á mánuði – fjárhæð sem margfaldast í heimalöndum barnanna. Til að mynda sextíufaldast fjárhæðin í Malaví. Með þessari gjöf er verið að bjarga barni, eins og mágarnir benda á. 

Viðtalið við Rúrik og Jóa má sjá í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir