Geysivinsæl íslensk auglýsing frá níunda áratugnum loks fundin

Hinrik Ólafsson fer á kostum í gamalli auglýsingu fyrir Iðnaðarbankann …
Hinrik Ólafsson fer á kostum í gamalli auglýsingu fyrir Iðnaðarbankann frá því snemma á níunda áratugnum. Skjáskot

Snemma á níunda áratugnum kom út á Íslandi auglýsing sem segja má að hafi slegið í gegn en nánast allir unglingar frá þessum tíma voru samkvæmt heimildum K100 syngjandi lagið sem kemur fram í auglýsingunni. Er um að ræða auglýsingu gamla Iðnaðarbankans titlaða „Iðnaðarbankinn er með á nótunum“. Margir muna eflaust eftir auglýsingunni og kunna jafnvel enn þá að raula grípandi laglínuna. 

Auglýsingin hefur þó hvergi verið aðgengileg almenningi – fyrr en nú. Ásgeir Páll, þáttastjórnandi morgunþáttarins Ísland vaknar lagði mikið á sig við að grafa upp auglýsinguna og tókst það á endanum og var hún spiluð í þættinum í morgun við mikinn fögnuð. Hana má sjá í spilaranum hér að neðan.

Hinrik fer á kostum

Í auglýsingunni má sjá ungan Hinrik Ólafsson leikara, og bróður tónlistarmannsins Egils Ólafssonar, fara á kostum en hann leikur aðalhlutverk í auglýsingunni, syngjandi og dansandi. Má þar einnig sjá einn af fyrstu hraðbönkum landsins.

Nú var það einmitt sonur Hinriks, Ísak Hinriksson, sem fann auglýsinguna í tölvunni sinni og deildi með morgunþættinum.

Deila má um það hvort myndbandið við auglýsinguna sé þó „með á nótunum“ í nútímanum en þar má til að mynda sjá tvo menn klædda í nokkuð ýkta búninga sem líklega eiga að vera Mexíkóar. 

Hér má sjá auglýsinguna.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir