Vel hægt að senda Íslending á Ólympíuleikana

Það eru margir ungir og hæfileikaríkir hjólabrettakappar á Íslandi og …
Það eru margir ungir og hæfileikaríkir hjólabrettakappar á Íslandi og vel mögulegt að senda fulltrúa fyrir Íslandshönd á Ólympíuleikana í hjólabretti 2024, segir Steinar Fjeldsted. Ljósmynd/Hjólabrettafélag Reykjavíkur

Steinar Fjeldsted er tónlistarmaður, hjólabrettagúrú og einn af stofnendum Hjólabrettafélags Reykjavíkur en fjölmargir, bæði ungir sem aldnir, sækja námskeið í hjólabretti hjá félaginu. Vonast hann til þess að geta sent Íslending á næstu Ólympíuleika, en fyrst var keppt í hjólabretti á leikunum í fyrra. Steinar staðfesti að Hjólabrettafélag Reykjavíkur sé nú orðið löggilt íþróttafélag við morgunþáttinn Ísland vaknar þar sem hann ræddi um hjólabrettaíþróttina í morgun. 

Steinar Fjeldsted kennir kátum krökkum á hjólabretti undir berum himni.
Steinar Fjeldsted kennir kátum krökkum á hjólabretti undir berum himni.

„Loksins er þetta komið á það stig að við getum farið að reka þetta sem íþróttafélag,“ sagði Steinar. Á síðasta ári ræddi Steinar um mikilvægi þess að fá hjólabrettaíþróttina inn á Ólympíuleikana en nú segir hann vel gerlegt fyrir Ísland að taka þátt í Ólympíuleikunum sem haldnir verða 2024. Segir hann marga af ungu kynslóðinni afar efnilega í íþróttinni hér á landi og bendir á að sigurvegari síðustu Ólympíuleika hafi verið aðeins 13 ára gömul stúlka.

„Það þurfa að vera þrjú löggild íþróttafélög. Það eru núna komin þrjú félög þannig að það er hægt,“ sagði Steinar í viðtalinu en hann segir þó að enn þurfi þó að eiga sér stað einhver „skriffinska“ til að þetta geti orðið að veruleika. 

Yngri kynslóðin kemur sterk inn

„Það eru nokkrir hér á landinu. Yngri kynslóðin er alveg að koma sterk inn,“ sagði Steinar spurður út í iðkendur íþróttarinnar, sem kalla sig „skeitara“, hér á landi.

Þá ræddi hann um námskeiðin sem í boði eru hjá hjólabrettafélaginu en ný námskeið eru að detta inn um þessar myndir á vefsíðu félagsins og eru þau í boði fyrir alla aldurshópa.

Hlustaðu á allt viðtalið við Steinar í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir