Lýsir þreytunni eftir að hann eignaðist börnin

Sverrir Bergmann og Halldór Gunnarsson gáfu út nýtt lag á …
Sverrir Bergmann og Halldór Gunnarsson gáfu út nýtt lag á dögunum, lagið „Mér þykir það leitt“. Þeir ræddu nýja lagið og um lífið sem tónlistarmaður á veirutímum í Ísland vaknar. Ljósmynd/Guðmundur Lúðvíksson

Margir foreldrar tengja eflaust við textann við nýjasta lag hljómsveitarinnar Albatross, sem samanstendur af þeim Sverri Bergmanni og Halldóri Gunnarssyni en lagið „Mér þykir það leitt“ er fyrsta lagið og textinn sem þeir semja og gefa út algjörlega saman en lagið fjallar um þreytuna sem Sverrir hefur upplifað eftir að hafa eignast börn. 

Þeir félagar mættu í Ísland vaknar á dögunum og ræddu þar um nýja lagið og líf tónlistarmannsins að undanförnu á veirutímum.

„Maður er oft spurður að þessu: Er eitthvað að gera? En ef maður er fjölveiðiskip þá skiptir maður bara um veiðarfæri þegar eitthvað annað má ekki,“ sagði Halldór Gunnar glettnislega í viðtalinu. Sverrir sagðist jafnframt þakklátur fyrir nýja starfið sitt sem stærðfræðikennari.

Spurðir út í nýja lagið sögðu þeir það í raun vera 12 ára gamalt. 

„Getur tekið á“ að ala upp börn

„Það er alveg að detta í fermingaraldurinn. Þetta lag er merkilegt fyrir þær sakið að þetta er fyrsta lagið sem við Halldór gerum saman og gefum út,“ sagði Sverrir.

„Það fjallar aðallega um það hversu þreyttur ég er búin að vera síðan ég eignaðist þessi börn. Það er þessi barningur að gera rétt og standa sig. Og það getur bara tekið á. Þetta fjallar um það,“ sagði Sverrir sem á tvær ungar dætur, fæddar 2020 og 2021 en lagið má heyra hér að neðan.

Þá rifjuðu þeir upp hvernig var að spila fyrir tómri brekku á Þjóðhátíð sem aldrei varð á síðasta ári.

„Það voru sjö kindur og tveir mávar í brekkunni þegar við vorum að spila. Við áttum alveg svakalega fallegt móment,“ sögðu þeir félagar en þeir spiluðu kvöldvökuna áður en Magnús Kjartan Eyjólfsson stýrði brekkusöngnum. 

„Það var semsagt ekkert kerfi úti í dal þannig að það heyrðist ekkert. Og Maggi var að spila brekkusönginn og við fórum fram fyrir sviðið og stóðum þar. Það var bara grafarþögn,“ sagði Halldór.

„Hann var að taka „Ofboðslega frægur“ með Stuðmönnum. Og það var ein manneskja í dalnum og hún sögn með og það var Ragnhildur Gísladóttir,“ sagði hann og bætti við að hann vonaði innilega að næsta Þjóðhátíð verði haldin. 

Viðtalið við þá Sverri og Halldór má heyra í heild sinni hér að ofan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir