Eva klúðraði því sem ekki er hægt að klúðra

Súkkulaðimús Evu Ruzu fyrir afmælisboð hennar misheppnaðist en bakstursdrottningin Eva …
Súkkulaðimús Evu Ruzu fyrir afmælisboð hennar misheppnaðist en bakstursdrottningin Eva Laufey, segir eftirréttinn einn þann einfaldasta sem hægt er að gera. Hún reddaði vinkonu sinni á endanum og kom færandi hendi með nýja súkkulaðimús fyrir afmælisboðið. Skjáskot af instagram

Eva Ruza, skemmtikraftur, áhrifavaldur og stjörnufréttakona, átti afmæli í liðinni viku og bauð því fjölskyldu sinni til veislu á föstudag. Undirbúningurinn fyrir veisluna gekk ekki sem skyldi því eftirrétturinn, súkkulaðimús, misheppnaðist hrapallega og minnti að sögn Evu meira á hafragraut en súkkulaðimús.

„Veistu það, Siggi, þetta er búið að vera blóð, sviti og vonbrigði. Það var stutt í tárin get ég sagt þér,“ sagði Eva Ruza í samtali við Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum á föstudag þar sem hún lýsti atburðarásinni en hún deildi henni jafnframt á instagramsíðu sinni. 

„Ég elska að vera að elda og brasa í eldhúsinu. Versta við það er að að ég er alltaf búin að ímynda mér það. Ég var til dæmis með yfirlýsingu í gær þegar ég byrjaði að gera súkkulaðimúsina um að ég væri að fara að gefa út bók um jólin af því að þetta myndi vera svo gott hjá mér,“ sagði Eva og bætti við: „Ég reyndar gæti gert mjög góða bók; hamfarakokkabók.

Ég læt aldrei deigan síga en í gær var mér allri lokið,“ sagði Eva sem lýsti því hvernig hún hringdi í sínar bestu vinkonur, þær Evu Laufeyju og Regínu Diljá, sem báðar eru frábærir kokkar og bakarar að sögn Evu, og spurði þær hvað hún ætti að hafa í eftirrétt. 

„Þú getur ekki klúðrað henni“

„Þær sögu báðar bara orðrétt, og ég á talskilaboð frá þeim báðum: „Eva Ruza, súkkulaðimús. Þú getur ekki klúðrað henni!““ lýsti Eva. „Veistu það, Sigurður, þetta var eins og hafragrautur með hrísgrjónum.

Ég horfði á þetta kekkjast meira og meira. Og ég hélt áfram að gusa ofan í þetta eggjahvítum,“ sagði Eva.

Hlutirnir blessuðust þó á endanum því Eva Laufey kom til bjargar á fimmtudagskvöldinu og gerði nýja og vel lukkaða súkkulaðimús fyrir vinkonu sína sem sló í gegn í afmælisboðinu þar sem einnig var á boðstólum einfaldur en frábær matur, mexíkósk veisla.

Eva Laufey er snillingur í eldhúsinu.
Eva Laufey er snillingur í eldhúsinu. Ljósmynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Súkkulaðimús Evu Laufeyjar má sjá hér að ofan og á instagramsíðu hennar þar sem hún setti uppskriftina í „highlights“.

mbl.is

#taktubetrimyndir