Manuela hefur aldrei smakkað áfengi þrátt fyrir að hafa unnið á bar

Manuela Ósk Harðardóttir hefur aldrei smakkað áfengi og mun aldrei …
Manuela Ósk Harðardóttir hefur aldrei smakkað áfengi og mun aldrei gera það. Ákvörðunin um að sleppa því að drekka alfarið segir hún að hafi ekki verið neitt sérstaklega skipulögð. Instagram

Manuela Ósk Harðardóttir ræddi um eitt fyrsta starf sitt á barnum Skuggabar þegar hún var 16-17 ára í Helgarútgáfunni sem send var út í beinni útsendingu frá Skuggabaldri á laugardag. Þrátt fyrir starfið hefur hún þó aldrei bragðað áfengi og segist aldrei ætla að gera það.

Var Skuggabarinn til húsa við hliðina á húsnæði Skuggabaldurs í miðborg Reykjavíkur og sagðist Manuela hafa verið „ógeðslega peppuð“ yfir að vera að vinna á bar á sínum tíma.

„Efnisminnsta sem ég hefði getað klæðst“

„Þegar ég hugsa til baka, að ég hafi verið 16-17 ára að vinna á bar, þá hristi ég bara hausinn yfir mér. Hlæ að litlu Manuelu sem var bara þarna algjör gella. Hélt hún væri svo með þetta,“ sagði Manuela.

„Ég man þegar ég mætti fyrsta daginn ógeðslega peppuð yfir að vera að vinna á bar.  Mér fannst ég svo mikil pæja. Mesta gellan, og ég fékk staffabúninginn. Þetta var það efnisminnsta sem ég hefði getað klæðst. Og í þessu trítlaði ég um Skuggabarinn að safna tómum ógeðslegum bjórglösum og fannst ég vera alveg með þetta,“ lýsti Manuela.

Skíthrædd við að missa stjórn

„Mér fannst þetta virkilega „kúl“ sko, að fá að vinna á bar. En ég hef náttúrlega aldrei smakkað áfengi. Ég var ekkert í þeim pælingum,“ sagði hún.

„Og mun aldrei. Það væri mjög hallærislegt að fara að byrja núna,“ svaraði hún spurð út í reglusemina en hún sagði að þetta hefði í raun aldrei verið sérstök ákvörðun.

„Ég var bara skíthrædd um að missa stjórn á mér. Það var eiginlega bara einhver hræðsla, ég er bara einhver mús,“ sagði hún.

Manuela ræddi einnig um komandi ferðalag sitt á Miss Universe-keppnina í Eilat í Ísrael og óvissuna sem fylgdi því þegar Ísrael lokaði landamærum sínum á dögunum. Hún flýgur til Ísraels frá París á morgun, miðvikudag.

Sjáðu allt viðtalið við Manuelu í Helgarútgáfunni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is

#taktubetrimyndir