Kveður miðbæinn eftir 11 ár

Hörður Ágústsson, eigandi Macland, hefur kvatt Laugaveginn.
Hörður Ágústsson, eigandi Macland, hefur kvatt Laugaveginn. Kristinn Ingvarsson

Macland hefur nú formlega flutt af Laugaveginum og opnað nýja og stærri verslun í Kringlunni. 

Eigandi Macland Hörður Ágústsson segir flutninginn súrsætan en tímabæran en hann er þekktur baráttumaður Laugavegarins.

„Það eru alltaf góðar hliðar á öllu leiðinlegu,“ sagði Hörður sem segir húsnæði Maclands á Laugavegi, einkennandi bláa húsið, vera aðalástæðu flutningsins. Hann ræddi um flutninginn við Síðdegisþáttinn á K100 á föstudag.

Macland flutti á Laugaveg 23 árið 2014
Macland flutti á Laugaveg 23 árið 2014 mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru margar ástæður. En í stuttu máli held ég að einfaldasta skýringin er sú að við vorum í húsnæði sem var orðið úr sér gengið. Það er eiginlega það sem kveikir í málinu. Því miður því þetta er ótrúlega fallegt hús. Virkilega vönduð bygging,“ sagði hann. 

Tíminn rann út

„Það er kominn tími að gera hana upp. Mér skildist á leigusalanum okkar að það væri ekki á döfinni. Miklar kvaðir á húsinu. Það er friðað að hluta til,“ sagði Hörður og bætti við að verslunin hefði hvort eð er þurft að flytja úr húsinu á meðan á framkvæmdum stæði. 

„Tíminn okkar rann bara út má segja,“ sagði hann.

„Það datt bara í hendurnar á okkur tækifæri sem við gátum ekki hafnað þegar við vorum búnir að skoða þetta. Að komast undir eitt þak. Það er það sem heillaði okkur mest,“ sagði Hörður en lítil Maclandsverslun hefur verið rekin frá 2018 í Kringlunni en nú hefur sú verslun sameinast stærri verslun í verslunarmiðstöðinni. 

Laugavegurinn á „hárréttri leið“

Hörður segist þó vera á þeirri skoðun að Laugavegurinn sé á „hárréttri leið“. 

„Mér finnst bara vanta meira af veitingastöðum og meira af blönduðum rýmum. Eins og Gummi Jör er að gera, með veitingastað og fatabúð. Það er nákvæmlega það sem ég vil sækja í á Laugaveginum,“ sagði hann.

„Ég er ekki viss um að fólk vilji labba upp Laugaveginn með níðþunga fartölvu. Þá er ég ekki að tala um einhvern bílastæðavanda heldur. Það er nóg af bílastæðum þarna,“ sagði hann.

Hlustaðu á viðtalið við Hörð í spilaranum hér að ofan.

mbl.is

#taktubetrimyndir