„Mest ögrandi sem við gátum gert að gera ógeðslega rólegt jólalag“

Salka Vals og Dísa í Helgarútgáfunni í gær.
Salka Vals og Dísa í Helgarútgáfunni í gær.

Reykjavíkurdætur eða Daughters of Reykjavík eins og hljómsveitin kallar sig hefur nú fetað á glænýjar slóðir og gefið út hugljúft jólalag, lagið Komi desember. Salka og Þórdís Björk eða Dísa úr hljómsveitinni mættu í Helgarútgáfuna í gær í beinni frá Austurvelli og ræddu um lagið og hljómsveitina.

„Við erum náttúrulega komnar á þann stað að flestar okkar eru mæður og edrú og að pæla í gólfefnum. Þetta var bara svona rökrétt framhald fyrir sveitina að gera eitthvað rólegt fallegt jólalag,“ sagði Salka kímin.

Dísa benti á að stúlkurnar í sveitinni hafi alltaf verið góðar í að fara á nýjar slóðir.

„Við höfum alltaf gert það svo þetta var eiginlega svolítið rökrétt,“ sagði Dísa. 

„Mest ögrandi sem við gátum gert að gera ógeðslega rólegt jólalag,“ bætti Salka við.

 Lagið er ábreiða af klassíska jólalaginu Christmas time is here og er einstaklega hugljúft en lagið má heyra hér.

Salka og Dísa ræddu um það hvernig Reykjavíkurdætur hafi mýkst í gegnum tíðina og hvernig það að geta ekki komið fram á sviði hefur haft áhrif á sveitina.

„Okkar sterkasta vara er „live showið“ okkar. Það er alveg smá erfitt að geta ekki „presenterað“ hana. Kannski þess vegna erum við að gera rólegt jólalag. Gera eitthvað smá næs og vera ekki svona „aggressívar“. Við fáum ekki að vera á sviði svo við erum eitthvað svona að mýkjast,“ sagði Salka en viðtalið við Reykjavíkurdætur má heyra í heild sinni hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir