Svo kalt í húsinu að börnin vildu ekki ís

Emmsjé Gauti ræddi við Ísland vaknar um kulda sem hann …
Emmsjé Gauti ræddi við Ísland vaknar um kulda sem hann hefur verið að eiga við heimafyrir og Jülevenner jólatónleika sína. K100

„Það er bara vesen heima. Ofnarnir kaldir og ég er enginn pípari en ég er búinn að fara í málið,“ segir Gauti Þeyr Másson eða Emmsjé Gauti sem hefur verið að eiga við mikinn kulda heima hjá sér upp á síðkastið.

Hann tjáði sig um kuldavandamál heimilisins í Ísland vaknar og ræddi um jólasýningar sínar, Jülevenner sem verða í Háskólabíói og í streymi rétt fyrir aðfangadag.

„Ég er að tala um að það er búið að vera í alvörunni kalt heima hjá mér. Það eru stórir gluggar, „næs“ jarðhæð. Við erum búin að vera að vakna á morgnanna og það eru allir inni á baði því það er gólfhiti þar,“ sagði Gauti sem skrifaði um málið á facebooksíðu sinni þar sem hann sagði frá því að börnin hans væru jafnvel hætt að vilja ís vegna kuldans.

Besta ráðið að banka í ofnana með hamri

Gauri sagði þó að fjöldinn allur af pípurum hafi sett sig í samband við hann í kjölfarið og deilt með honum hinum ýmsu ráðum. Besta ráðið var þó að banka í ofnana með hamri.

En Emmsjé Gauti hefur annað fyrir stafni en að finna leiðir til að hita upp húsið sitt því hann er einnig á fullu að undirbúa Jülevenner jólatónleikasýningar sínar sem hann heldur 22. og 23. desember en hann bætti við aukasýningum klukkan 23:00 þessa daga eftir að uppselt var á þær fyrri.

Sagðist hann búast við að sýningin klukkan 23:00 á Þorláksmessukvöld verði skemmtilegasta sýningin.

„Það verður svona brekkustemning í Háskólabíói,“ sagði Gauti en einni sýningunni verður einnig streymt á Þorláksmessu klukkan 19:30.

Hlustaðu á allt viðtalið við Emmsjé Gauta í spilaranum hér að neðan. Hægt er að fá miða á Jülevenner á tix.is

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir