Svanhildur lagði mikið á sig fyrir afmæli Loga

Svanhildur Hólm svaraði 20 ógeðslega mikilvægum spurningum fyrir hönd Loga …
Svanhildur Hólm svaraði 20 ógeðslega mikilvægum spurningum fyrir hönd Loga Bergmanns á afmælisdegi hans í gær en þau hafa verið hamingjusamlega gift í 16 ár. Ljósmynd/Aðsend

Svanhildur Hólm Valsdóttir, lögfræðingur og fram­kvæmda­stjóri Viðskiptaráðs, svaraði „20 ógeðslega mikilvægum spurningum“ í Síðdegisþættinum í gær en með skemmtilegum snúning í tilefni af afmæli eiginmanns hennar, Loga Bergmanns sem stjórnar þættinum með Sigga Gunnars.

Svaraði hún spurningunum fyrir hönd Loga í þættinum og kom margt í ljós um þau hjónin en þau hafa verið hamingjusamlega gift í 16 ár.

Lýsti Svanhildur því meðal annars hversu mikið hún þurfti að leggja á sig til að finna réttu afmælisgjöfina fyrir Loga sinn.

„Maður sem á allt“

„Þetta er svona maður sem á allt og þegar maður spyr hann: Hvað viltu fá í afmælisgjöf?

–Ég veit það ekki.

–Hvað viltu fá í jólagjöf?

–Ég veit það ekki.

Eins og það sé ekki nógu ógeðslega ósanngjarnt að eiga bæði afmæli og hafa jól þá þurfi það að gerast í sama mánuðinum hjá þessum manni sem á allt og kaupir sér allt sjálfur ef hann langar í eitthvað og er svo líka bara óþægilega nægjusamur,“ sagði Svanhildur og lýsti afmælisgjafaleiðangrinum sem hún lagði af stað í fyrir Loga.

Hefði átt að vera tekið upp

„Þannig að ég fór í gær og mátaði sex týpur af koddum. Það hefði átt að taka þetta upp, þetta var svo ógeðslega asnalegt.

Ég liggjandi uppi í rúmi á eins dýnu og við erum með heima. Til þess að gera vísindalega úttekt á því hvernig koddinn hentaði á nákvæmlega eins dýnu og við erum með. Svo endaði ég á að kaupa svona heilsukodda af því að hann er svona heilsukoddaperri og er alltaf að kvarta undan bakinu á sér og hálsinum og eitthvað. Það gerði það að verkum að hann vakti mig aldrei í nótt,“ lýsti Svanhildur sem segir Loga yfirleitt brölta mikið á nóttunni.

Svanhildur svaraði ýmsum spurningunum fyrir hönd eiginmanns síns en hún sagði meðal annars skemmtilega sögu af því þegar Logi var handtekinn og kærður af þáverandi lögreglumanni fyrir brot á valdstjórninni. Skemmst er frá því að segja að málið var látið niður falla og endaði með afsökunarbeiðni.

Hlustaðu á allt spjallið við Svanhildi í Síðdegisþættinum í afmælisþætti Loga Bergmanns í spilaranum hér að ofan. 


 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir