Saklaus maður látinn laus eftir 43 ár í fangelsi

Midwest Innocence Project/GoFundMe

Saklaus maður sem sat í fangelsi í 43 ár fyrir þrefalt morð sem hann framdi ekki hefur loks verið látinn laus úr fangelsinu í Missouri í Bandaríkjunum. Er um að ræða Kevin Strickland en hann fékk frelsi sitt á þriðjudag, þá 62 ára gamall en hann var handtekinn aðeins 18 ára.

Á ekki rétt á bótum

Þrátt fyrir að um sé að ræða lengstu óréttmætu fangelsisvist í sögu fylkisins á Strickland ekki rétt á neinum fjárhagslegum bótum vegna laga í fylkinu en þar er krafa fyrir bætum sú að DNA rannsókn leiði til þess að einstaklingur sé leystur úr haldi.

Lögfræðingar Strickland leituðu því á náðir netverja og stofnuðu GoFundMe söfnunarsíðu fyrir hann og er söfnunin nú komin upp í yfir 1,7 milljónir bandaríska dollara eða yfir 220 milljónir íslenskra króna.

Strickland var dæmdur í lífstíðarfangelsi í apríl árið 1978 eftir að hann var tengdur við morð sem átti sér stað í Kansasborg þar sem þrír aðilar voru myrtir og einn slasaðist.

Óljós grunur ættingja þess slasaða, Cynthiu Douglas, varð til þess að unglingurinn Strickland var handtekinn og benti Douglas á hann í sakbendingu. Líklegt þykir að hún hafi orðið fyrir utanaðkomandi áhrifum og pressu sem hafi haft áhrif á val hennar en það leiddi til þess að Strickland var ákærður og dæmdur fyrir morðin.

Engin sönnunargögn

Engin sönnunargögn voru til staðar og ekkert sem tengdi hann við glæpinn en hann hélt fram sakleysi sínu alla tíð í fangelsi. Sagðist hann hafa verið heima hjá sér að horfa á sjónvarpið á meðan glæpurinn átti sér stað.

Þá hefur meðal annars verið vakin athygli á því að allir í kviðdómi málsins voru ljósir á hörund en Strickland er þeldökkur.

Vildi draga vitnisburð sinn til baka

Douglas hafði sjálf samband við lögfræðinga Strickland sagðist efast um það að vitnisburður hennar væri réttur og vildi hjálpa Strickland ef hún gæti.

Hún lést þó áður en hún náði að draga til baka vitnisburð sinn gegn Strickland en fjölskyldumeðlimir hennar hafa allir borið vitni um að hún hafi „valið vitlausan mann“.

Málið var tekið up aftur í nóvember, eftir að ný lög tóku gildi í Missouri, sem leiddu til þess að hann hreinsaður af öllum dómum og var látinn laus.

BBC og ABC News.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir