Tækifæri í að vera ein um jól

Öðruvísi jól. Anna býður 14 konum að koma um jólin …
Öðruvísi jól. Anna býður 14 konum að koma um jólin í slökunardvöl í Birkihofi. Ljósmynd/ Isfold.is

Anna Þóra Ísfold og barnsfaðir hennar skildu árið 2017 og segist hún hafa fengið hálfgert áfall við að vera án barnanna sinna fyrstu jólin það ár en hún og barnsfaðir hennar ákváðu að skiptast á að hafa börnin á hátíðunum. Hún uppgötvaði þó í kjölfarið hversu mikið tækifæri væri í því fólgið að leita inn á við á þessum tíma og ákvað að deila reynslu sinni með öðrum konum og býður nú upp á valdeflandi upplifunardvöl fyrir konur yfir hátíðarnar.

„Ég var búin að vera mikið í hefðunum. Alltaf með stórfjölskyldunni um jólin. Og þá runnu upp jól þetta skilnaðarár þar sem ég var bara ein. Um þessi jól fór ég í skíðafrí til Akureyrar en á Þorláksmessu, þegar ég var komin til Akureyrar, fyrstu jólin án barnanna, fékk ég bara hita og spennufall af álagi við að vera án þeirra,“ sagði Anna í Ísland vaknar í gærmorgun.

„Örmagnandi tilfinning“

„Þetta var bara örmagnandi tilfinning. Auðvitað er fyrsti tíminn eftir skilnað rosalega erfiður hjá öllum,“ sagði Anna. „En það sem gerist síðan í kjölfar skilnaðarins er að það hefst uppbyggingartímabil hjá fólki,“ bætti hún.

„Þegar ég fór að fara inn á við fór ég að átta mig á tækifærinu sem þessi tími er fyrir mig. Nú eru fram undan yndisleg jól og börnin mín munu eiga yndisleg jól hjá pabba sínum. Þá ætlaði ég að finna leið til að fara inn á við og gefa af mér,“ sagði Anna en jólaferðin verður í Birkihof á Suðurlandi og verður frá Þorláksmessu og þar til annan í jólum. Mun fagfólk í jóga og jógadáleiðslu og hugleiðslu taka þátt í dagskránni.

Fjórtán konur saman um jólin

Fjórtán konur verða samankomnar yfir jólin og segir Anna að þær séu allar í afar ólíkum aðstæðum. Sumar eiga uppkomin börn eða eru með jafna umgengni eins og Anna sjálf. Aðrar hafa ákveðið að vera með út af álagi og kjósa að nýta þennan tíma til uppbyggingar. Skráning er farin vel af stað en enn eru laus pláss í boði.

„Þetta hefur lengi tikkað í mér, að finna tilgang í því sem ég er að gera. Ég er menntaður viðskiptafræðingur og svo einhvers staðar á ævinni snerist viðskiptafræðingurinn í jógastelpu og D-vítamíngúrú,“ sagði Anna.

Konurnar sem taka þátt í ferðinni verða leiddar inn í innri heim sinn, læra að heyra í innsæinu og setja sér markmið fyrir nýja árið, og er markmiðið að allar konurnar komi endurnærðar og valdefldar út úr jólahátíðinni.

Fá má upplýsingar og skrá sig í ferðina á isfold.is.

Hlustaðu á allt viðtalið við Önnu í spilaranum hér að neðan.

 

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir