Sue Ellen sendi Helgu Völu í freyðibað

Helga Vala rak upp stór augu í gærmorgun þegar hún …
Helga Vala rak upp stór augu í gærmorgun þegar hún fékk persónulega kveðju frá Lindu Gray sem lék uppáhaldspersónu hennar úr Dallas þáttunum. Samsett ljósmynd: Eggert Jóhannesson/Wikipedia

Helga Vala Helgadóttir, þingflokkaformaður Samfylkingarinnar, rak upp stór augu í gærmorgun þegar hún fékk persónulega kveðju í myndskilaboðum frá leikkonunni Lindu Gray sem er frægust fyrir hlutverk sitt sem Sue Ellen í sjónvarpsþáttunum Dallas. 

Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Helgu í Síðdegisþættinum í gær og hlustuðu þar á kveðjuna í beinni og ræddu við Helgu um hana. 

Heilög stund að horfa á Dallas

„Ég sá hana [kveðjuna] eftir einhverja fundi í morgun. Þá sá ég þessa fallegu kveðju frá Lindu vinkonu minni. „We go way back“ – ég var ofboðslega mikill aðdáandi Lindu,“ sagði Helga Vala. „Já, þetta var bara heilög stund á miðvikudögum á Suðurgötunni. Þar sem ég sat á teppinu og foreldrar mínir í sófanum. Við horfðum á Lindu kljást við J.R. og alla hina,“ sagði Helga. 

„Svo auðvitað fann hún það á sér að það var eitthvað verið að „bitchast“,“ bætti hún við kímin.

Veit ekki hver ber ábyrgð

Í kveðjunni skilar Linda kærri kveðju til Helgu og kveðst hafa heyrt af því að forsætisráðherra Íslands hafi sagt opinberlega að Helga Vala hafi verið of hörð við íslensku ríkisstjórnina. Hún hvetur hana til að slaka bara á og njóta sín. 

„Hún er svo mikill snillingur. Ekki vera að æsa þig yfir þessu. Þau eru bara smá blúsuð. Fáðu þér bara búbblur og farðu í freyðibað,“ sagði Helga Vala sem segist ekki hafa hugmynd um það hver beri ábyrgð á kveðjunni sem er líklega pöntuð í gegnum vefsíðuna Cameo en þar er hægt að panta kveðjur frá frægu fólki. 

Viðtalið við Helgu Völu má í heild sinni heyra hér. 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir