Fimm bestu hlaðvörpin – „Er ógeðsmegin í lífinu“

Sigrún Elíasdóttir stjórnar hlaðvarpsþáttunum Myrka Ísland ásamt Önnu Dröfn Sigurjónsdóttur. …
Sigrún Elíasdóttir stjórnar hlaðvarpsþáttunum Myrka Ísland ásamt Önnu Dröfn Sigurjónsdóttur. Hún deildi sínum uppáhaldshlaðvörpum sem öll hafa það sameiginlegt að fjalla um myrka en áhugaverða hluti, rétt eins og hennar eigin hlaðvarp sem fjallar um hörmungar Íslandssögunnar. Samsett Ljósmynd: Gassi

Sigrún Elíasdóttir er handritshöfundur og annar stjórnandi hlaðvarpsþáttanna Myrka Ísland. Þar fara hún og Anna Dröfn Sigurjónsdóttir yfir hinar ýmsu hörmungar Íslandssögunnar og það er af nægu að taka. 

„Við spjöllum um eldgos, pestir, drauga, útilegumenn, aftökur og skipsströnd á léttan og skemmtilegan hátt. Hljómar sérlega óviðeigandi, en það er jú bara þannig sem við Anna erum sem persónur almennt. Það er fátt sem ekki er þess virði að hlæja að. Mig langaði til að hafa þættina fræðandi en um leið aðgengilega og með skemmtanagildi. Handritsgerðin er samt sem áður grafalvarleg og heilmikil, alltaf tíu blaðsíðna heimildavinna að baki hvers þáttar. Það er ástæðan fyrir því að ég hef bara nennt að gera þetta verkefni í 10 þátta skorpum, því ég myndi aldrei ráða við þessa pressu allar vikur ársins!“ segir Sigrún en hún er sagnfræðingur að mennt en hefur líka skrifað barna- og kennslubækur.

Hún deildi þeim hlaðvörpum sem hún hlustar helst á þessa dagana en þau eru eftirfarandi:

Morðcastið

„Þær morðcast-systur komu mér á sporið með að hlusta á glæpahlaðvörp, bæði er ég jú frekar mikið ógeðsmegin í lífinu og svo finnst mér þær bara svo skemmtilegar. Þær voru mér talsverðar fyrirmyndir í því að vilja hafa eigin þátt í svona spjallformi.“

Lore

„Þetta er eiginlega fyrsti hlaðvarpsþátturinn sem ég fór að hlusta á eftir ábendingu frá aðila sem sagði mér að það vantaði svona þátt um íslensk efni og varð í rauninni kveikjan að mínum eigin þáttum. Aaron Mahnke kafar ofan í hryllilegt eða yfirnáttúruleg efni frá öllum hornum heimsins. Hann getur verið smá dramatískur í frásögn en ég hef gaman af honum.“

Myrkur

„Já, ég er svona myrk týpa, það var vitað. Nína segir líka frá morðum og misþyrmingum á skemmtilegan og hressan hátt. Hún er góður orðasmiður og lýsir hræðilegum hlutum svo frábærlega.

Háski

„Hér segir Unnur Regína frá venjulegu fólki sem lendir í ótrúlegum lífsháska og hremmingum og nær oftar en ekki að lifa af á magnaðan hátt. Spennandi og óhugnanlegt en oftar en ekki með meiri möguleika á eftirlifendum heldur en í glæpahlaðvörpunum!“

Supernatural

„Supernatural með Ashley Flowers er þáttur þar sem farið er yfir mannshvörf, geimverur, samsæriskenningar, draugagang og annað óþekkt og dularfullt í heiminum. Málin eru rannsökuð frá mörgum hliðum og stundum koma fram rökréttar skýringar á málunum en stundum er ekkert slíkt að finna og málin halda áfram að vera óupplýst án nokkurrar skýringar.“

Önnur hlaðvörp sem eru í uppáhaldi hjá Sigrúnu eru Crime Junkie og International Infamy sem eru þættir með Ashley Flowers, Villains og Serial Killers.

„Svo má ekki gleyma Kaupfélaginu með Jóni frænda en hann er reyndar í pásu,“ sagði Sigrún að lokum.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir