Áslaug Arna: „Gott að muna skammstöfunina VIN“

Áslaug Arna er spennt fyrir nýja starfinu sem vísinda-, iðnaðar- …
Áslaug Arna er spennt fyrir nýja starfinu sem vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en ráðuneytið hefur ekki enn verið formlega stofnað svo hún hefur nú aðsetur í menntamálaráðuneytinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fráfarandi dómsmálaráðherra var afmælisbarn gærdagsins en hún varð 31 árs í gær. Í tilefni heyrðu Logi Bergmann og Siggi Gunnars í henni og ræddu við hana í Síðdegisþættinum um nýja ráðuneytið sem hún tekur nú við.

Kom hún með þá lausn fyrir þá sem eiga erfitt með að muna hvað nýja ráðherraheiti hennar væri en lausnin felst í að muna ákveðna skammstöfum.

„Þá er gott að muna skammstöfunina VIN eða VÍN. Því það er vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,“ sagði Áslaug sem segist afar spennt fyrir nýja ráðuneytinu sem þó hefur ekki verið formlega stofnað enn. 

„Ég er ráðherra en það er ekki til ráðuneyti fyrir mig. Það á eftir að stofna og koma á fót ráðuneytinu og það er verkefni mitt til næstu tveggja mánaða. Að búa til þetta ráðuneyti í samvinnu við gott fólk. Það fólk sem er yfir þessum málaflokkum í þremur mismunandi ráðuneytum.“ sagði Áslaug. 

Með aðsetur í menntamálaráðuneytinu til að byrja með

Ertu þá að gera þetta bara við eldhúsborðið?

„Mér var troðið í menntamálaráðuneytið til að byrja með. Þannig að ég fékk skrifstofu þar og byrja þar. Þannig að ég er komin á fullt í þetta,“ sagði Áslaug kímin.

„Ég er mjög spennt. Þetta er ótrúlega spennandi ráðuneyti sem er búið til í kringum þessa nýju verðmætasköpun og þessa miklu stoð hugverka og nýsköpunar og iðnaðar og svo auðvitað háskólann, sem er verið að lyfta svolítið upp finnst mér með þessu, eins og Norðurlöndin gera.

Að hafa svona „higher education“ eins og þau kalla það. Í sér ráðuneyti. Til að lyfta því ennþá fekar upp,“ sagði Áslaug sem eyddi afmæliskvöldinu úti að borða með góðu fólki. 

Hlustaðu á allt spjallið við Áslaugu Örnu í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir