Tenerife „eini áfangastaðurinn í veröldinni“ sem gengur svo vel

Svali fór um víðan völl í Síðdegisþættinum þar sem hann …
Svali fór um víðan völl í Síðdegisþættinum þar sem hann ræddu um stöðuna á Tenerife en hann segir um 120 flugvélar lenda á dag á eyjunni. Kristinn Ingvarsson

Fjögur ár eru nú síðan Svali Kaldalóns flutti ásamt fjölskyldu sinni til Tenerife þar sem hann rekur nú ferðaþjónustuna, Tenerife ferðir. Hann er nú staddur hér á landi og vinnur að því að fara aftur með fjölskyldu sína heim til Tenerife en fjölskyldan dvaldi hér á landi stóran hluta ársins vegna kórónuveirufaraldursins.

Hann ræddi um lífið á Tenerife í Síðdegisþættinum en hann sagðist aðspurður halda að eyjan væri „eini áfangastaðurinn í veröldinni“ sem gengi svo vel á þessum tíma í faraldrinum. Staðan hafi þó verið vægast sagt hræðileg síðustu 18 mánuði fyrir tenerifebúa enda eru 80% tekna íbúa í gegnum ferðaþjónustuna. 

„Allt að skríða í rétta átt“

„Það er allt að skríða í rétta átt þarna og það er mjög jákvætt. En ég skil að margir hafi áhyggjur miðað við umræðuna,“ sagði Svali en hann er á þeirri skoðun að fréttafluttningur af faraldrinum ætti aldrei að vera settur á hærri stall en í fimmtu frétt. 

„Ég held að þetta sé bara eini áfangastaðurinn í veröldinni. Það eru 120 vélar á dag að lenda þarna. Það er svakalegt. Það er ótrúlegt hvað þeir hafa náð að „tjassla“ þessu saman,“ sagði Svali. 

„Þessir 18 mánuðir eru búnir að vera hræðilegir, svo vægt sé tekið til orða tekið,“ sagði hann.

„Þeir vilja breyta þessu að það séu ekki öll eggin nánast í sömu körfunni. Það má ekki gleyma því að Tenerife var mjög mikil landbúnaðareyja áður en þeir verða túristi. Það byrjaði bara 1970 og svona byggðist upp. Það er ekki fyrr en á tíunda áratugnum sem fer eitthvað að gerast þarna. Þeir fara nú að nálgast Gran Canaria í vinsældum. Þetta er tiltölulega ungt sem svona ofboðsleg túristanýlenda. Það hafa alltaf verið ferðamenn þarna lengi en ekki í svona miklum mæli. Smám saman hvarf landbúnaðurinn og útfluttningurinn hætti,“ sagði Svali. 

Svali vinnur nú að því að koma yngstu börnum sínum í grunnskólann í Tenerife og ræddi um það hversu ólíkt skólakerfið á eyjunni er miðað við Ísland. Benti hann meðal annars á að hann hafi aldrei fengið að stíga fæti inn á skólalóðina og að aðgengi að kennurum væri mjög takmörkuð. 

„Það var smá stund að venjast, ég viðurkenni það,“ sagði hann. 

Þá benti hann á að það þætti ekkert tiltökumál og bara eðlilegt að borga opinberum starfsmönnum undir borðið til að fá leyfi og annað.

Hlustaðu á Svala fara um víðan völl í umræðu um Tenerife í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir