Reyna að „æsa ekki krakkana upp“ á aðventunni

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Guðbjörg Oddný Jónasdóttir formaður Menningar …
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Guðbjörg Oddný Jónasdóttir formaður Menningar og ferðamálanefndar Hafnarfjarðar vilja njóta aðventunnar í Hafnarfirði en Rósa segist helst ekki fara úr bænum á þessum tíma. Samsett ljósmynd: mbl.is/Freyja Gylfa/Árni Sæberg

„Ég helst fer ekki út úr Hafnarfirði á aðventunni og hef gert það löngu áður en ég byrjaði í þessu starfi sem ég er í,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, í viðtali við Helgarútgáfuna. Mætti hún ásamt Guðbjörgu Oddnýju Jónasdóttur formanni Menningar og ferðamálanefndar Hafnarfjarðar til að spjalla við þau Einar Bárðar, Önnu Möggu og Yngva Eysteins um helgina.

Sagðist Rósa elska jólahátíðina og aðventuna í Hafnarfirði sem hún segir að hafi náð að skipa sér mjög sérstakan sess undanfarin ár – meðal annars með Jólaþorpinu, fallegum og miklum skreytingum í bænum og nýtilkomnum skreytingum í Lystigarðinum Hellisgerði í Hafnarfirði en hann verður 100 ára eftir rúmt ár. Þá ræddi Rósa um væntanlega skautasvellið, Hjartasvellið, sem er væntanlegt til landsins á næstu dögum en það verður miðsvæðis í Hafnarfirði.

Ekki með börnin í hringiðu stressins

„Þegar ég var með börnin mín lítil var ég markvisst að reyna að vera ekki með þau í hringiðu stressins. Fara ekki inn í fjölmennar verslunarmiðstöðvar, með fullri virðingu fyrir þeim, þannig að ég sótti alltaf í að labba í þessari ljúfu stemningu sem er hérna niðri í bæ,“ sagði Rósa.

„Þessi ljúfa stemning og að labba og sjá jólaljósin. Kaupa eina og eina litla jólagjöf í Jólaþorpinu eða í búðunum hérna. Fara einhvert inn í kakó,“ sagði hún.

Guðbjörg tók undir þetta í viðtalinu en hún sagðist reyna sitt besta til að „æsa ekki krakkana upp“ en hún á meðal annars einn fjögurra ára gamlan son. 

„Þannig að ég er aðeins að reyna að taka þessu rólega. Svo við höfum verið að skreyta og setja upp ljós og svona. Svo gerum við svolítið að því að baka smákökur. Svo er það toppurinn á tilverunni að fara í Jólaþorpið og í Hellisgerði. Þeim finnst það alveg frábært. Hitta jólasveininn og fá sér kakó,“ sagði Guðbjörg sem segir börnin njóta tímans og samverunnar.

Hlustaðu á allt spjallið við Rósu og Guðbjörgu um aðventuna í Hafnarfirði í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir