Hera hafnaði einu allra vinsælasta jólalagi allra tíma

Hera verður með 20 ára afmælistónleika sívinsælu jólaplötunnar Ilmur af …
Hera verður með 20 ára afmælistónleika sívinsælu jólaplötunnar Ilmur af jólum 20. desember í Hallgrímskirkju. Ljósmynd/facebook/Ilmur af jólum

Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona segist enn sjá eitthvað eftir ákveðinni ákvörðun varðandi eitt vinsælasta jólalag Íslendinga en hún ræddi um þetta og um væntanlega jólatónleika hennar, Ilmur af jólum í 20 ár í Síðdegisþættinum á föstudag.

Sagðist hún hafa verið að vinna að plötu með Frostrósum þegar hún fékk ákveðið verkefni með söngkonunni Eivöru.

Fékk frammistöðukvíða

„Þá átti ég að syngja lítið lag með Eivöru og þegar ég síðan heyrði það þá fékk ég svo mikinn frammistöðukvíða gagnvart Eivöru. Mér fannst hún svo geggjuð í þessu lagi að ég eiginlega bara sagði mig frá því. Bara eitthvað: „Er ekki bara best að hún taki þetta.“ Þetta er enn í dag eitt vinsælasta jólalag allra tíma: Dansaðu vindur,“ sagði Hera. 

Hún sagðist aðspurð alls ekki finna fyrir reiði þegar hún heyrir lagið. 

„Ég dýrka þetta lag. Hún gerir þetta bara svo vel. En ef ég hefði gert þetta með henni væri þetta eflaust bara það lag. Lagið er bara þannig og fékk þannig móment,“ sagði Hera.

„Það var einhvern veginn allt svo rétt við að hún tæki þetta bara.“

Hún sagðist þó stundum haf pirrað sig sérstaklega á því að hafa ekki sungið lagið með Eivöru – þegar hún sá hana syngja lagið á sviði. 

„Ég skal viðurkenna það að þegar hún var á tánum að syngja það fyrir fullri Laugardalshöll hugsaði ég: Djöfull væri ég til í að syngja þetta lag núna.  En ég geri það þá bara oft á mínum tónleikum,“ sagði Hera. Lagið mun þó ekki koma fram á jólatónleikum Heru í ár enda er um að ræða 20 ára afmælistónleika fyrstu og sívinsælu sólóplötunnar hennar, Ilmur á jólum. 

Búin að halda henni í jólagleðinni í 20 ár

Hera tók undir að það hafi þótt nokkuð sérstakt að hún hafi ákveðið að fyrsta sólóplatan hennar ætti að vera jólaplata en sagði að það hafi verið algjörlega rétt ákvörðun. 

„Hún er bara búin að halda mér í jólagleðinni í 20 ár. Þetta var svo skrifað í skýin og ég gerði hana af svo ofsalegri ástríðu og þó ég segi sjálf frá, ég gerði hana svo vel með mínu samstarfsfólki þá, að hún er ennþá bara skotheld,“ sagði Hera en tónleikarnir verða haldnir í Hallgrímskirkju þann 20. desember.

Sjáðu og hlustaðu á allt viðtalið við Heru í spilaranum hér að neðan. Hægt er að fá miða á tónleikana á tix.is

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir