Friðrik Ómar missti bragðskynið á einu augabragði

Friðrik Ómar opnaði sig í 20 mikilvægum spurningum í Síðdegisþættinum …
Friðrik Ómar opnaði sig í 20 mikilvægum spurningum í Síðdegisþættinum en þar ræddi hann meðal annars nýlega upplifun sína á því að fá Covid. mbl.is/​Hari

Friðrik Ómar opnaði sig í dagskrárliðnum 20 ógeðslega mikilvægum spurningum í Síðdegisþættinum og kom ýmislegt í ljós um tónlistarmanninn þjóðþekkta í þættinum. 

Ræddi hann meðal annars um það hvernig var að smitast af Covid-19 á dögunum og hvernig hann uppgötvaði smitið í flugvél á leið frá London. 

Bragð- og lyktarskynið hvarf á einu augnabliki

„Ég var í rauninni orðin hundrað prósent viss þegar ég missti lyktar- og bragðskynið á leiðinni heim frá London. Það var það sem mér fannst óþægilegast; að vera inni í lokuðu rými með fullt af fólki og vita að ég væri með þetta. Er ég að fara að smita einhvern annan?“ lýsti Friðrik í þættinum.

Sagði hann að bragð- og lyktarskynið hefði horfið á einu augabragði í flugvélinni. „Ég var nýbúin að éta Twix-súkkulaði – geggjað. En svo var ég kominn með steikina þrjátíu mínútum síðar og ég fann ekkert,“ sagði Friðrik, sem kveðst þó ekki hafa orðið mikið veikur af Covid. 

„Ég er ekkert að segja að ég mæli með að fólk fái það – en það er leiðinlegt að segja frá því á sama tíma að ég er smá feginn að vera búin með þetta. Það eru margir sem segja að við eigum öll eftir að fá þetta. Ég er bara búinn – allavega með þetta afbrigði,“ sagði Friðrik. 

Þá kom í ljós í þættinum að Friðrik er kattliðugur, sem er hans helsti leyndi hæfileiki, er frábær í bandí en hræðilegur í öllum öðrum íþróttum og gerir ómótstæðilega lambalund með tyrknesku ívafi.

Skemmtilegast að syngja á sviði

Friðriki finnst leiðinlegast að dæla bensíni á bíl og skemmtilegast að syngja á sviði en hann ræddi einnig um komandi tónleika sína, en fyrstu jólatónleikarnir, Heima um jólin, með gestasöngvurunum Selmu Björnsdóttur, Jógvani Hansen og Ragnheiði Gröndal, verða einmitt haldnir í dag en fleiri tónleikar verða haldnir í desember og er hægt að panta miða á tix.is.

Hlustaðu á allt viðtalið við Friðrik Ómar í Síðdegisþættinum með þeim Sigga Gunnars og Loga Bergmann í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir