Tóku áhættu og létu drauminn rætast

Helga Haraldsdóttir tók mikla áhættu hætti í vinnunni og stofnaði …
Helga Haraldsdóttir tók mikla áhættu hætti í vinnunni og stofnaði Kandís sælgætisgerð á dögunum en hún hefur nú ásamt samstarfskonu sinni, Wiolu Tarasek, framleitt þrjár tegundir af bjóstsykrum. Hefur það verið draumur hennar frá barnæsku að opna litríka sælgætisverslun og gerð, frá því hún sá atriði í Línu langsokk. Er þetta framtíðarmarkmið Kandís. Ljósmyndir/Aðsendar

Helga Haraldsdóttir ákvað að taka mikla áhættu þegar hún sagði upp starfi sínu sem yfirkokkur á Mat og drykk til að fylgja draumi sínum.

„Það var bara eitt markmið og það var að stofna íslenska sælgætisgerð,“ sagði Helga í samtali við Síðdegisþáttinn á K100. Það hefur hún svo sannarlega gert, ásamt samstarfskonu sinni Wiolu Tarasek, en þær stofnuðu sælgætisgerðina Kandís á dögunum. Wiola er með gráðu í jurtavísindum, en þær stöllur handgera nú alíslenskt sælgæti með bragðefnum úr íslenskum jurtum.

Wiola Tarasek er meðstofnandi Helgu á Kandís en hún er …
Wiola Tarasek er meðstofnandi Helgu á Kandís en hún er með gráðu í jurtavísindum sem kemur sér vel við að handgera sælgæti með bragðefnum úr íslenskum jurtum.

Þær eru nú að gefa út þrjár tegundir af íslenskum brjóstsykri en meðal annars er einn brjóstsykurinn með birki- og eplabragði og annar með hvannar- og sólberjabragði.

„Bara rétt að byrja“

„Við erum bara rétt að byrja núna. Við erum tilbúnar með þessa vöru, þrjár tegundir og erum með aðstoð Samtaka smáframleiðenda matvæla, sem eru félagasamtök. Við erum núna komin í sex stærstu Krónuverslanirnar,“ sagði Helga.

„Þetta var mikil áhætta og stress sem fylgir því. En það líka knýr mann áfram. Ef maður ætlar út í það verður bara bara að fara „all in“,“ sagði Helga og bætir við að hana hafi alltaf langað að gera eitthvað sjálf.

„Svo fæddist þessi hugmynd með samstarfskonunni minni,“ sagði Helga.

Lína Langsokkur innblásturinn

Sagði Helga að hún hefði verið innblásin af ákveðnu atriði í leiknu Línu Langsokks-myndunum sem hún sá sem barn, þar sem þremenningarnir í myndunum fara inn í sælgætisverslun.

„Og bara litadýrðin og krakkarnir stóðu þarna þrír slefandi yfir þessu. Ég man bara hvernig tilfinningin var að horfa á þetta,“ útskýrði Helga.

„Mig langaði að skapa eitthvað svoleiðis,“ bætti hún við en hún segir það vera framtíðarmarkmið að opna sælgætisbúð og -gerð.

„Akkúrat núna erum við að framleiða og við erum með þessar þrjár tegundir af brjóstsykri,“ sagði hún.

Kandís er nú með þrjár tegundir brjóstsykra.
Kandís er nú með þrjár tegundir brjóstsykra.

Helga sagði frá því að þær Wiola hefðu farið til Danmerkur og heimsótt þar brjóstsykursgerð sem hefur verið starfrækt frá 1890 og að þar hafi þær lært „helling“.

„Þar vorum við að hitta systkini sem voru af þriðju kynslóð að framleiða brjóstsykur,“ sagði hún.

Sérútbúin brjóstsykursvél

Í framhaldi hafi þær fengið franskt fyrirtæki til að handsmíða ákveðna handknúna brjóstsykursvél sem þær nota til að framleiða brjóstsykurinn.

„Þetta er sjúklega spennandi og ég er ofboðslega stolt af þessu, hvernig þetta kemur út. Það hefur mikil vinna farið í þetta,“ sagði Helga.

„Pínu óraunverulegt“

„Þetta er pínu óraunverulegt akkúrat núna. Að vera í þessari stöðu og geta haldið á þessu. Eftir alla þessa vinnu og alla þessa vöruþróun,“ lýsti Helga sem segir brjóstsykurinn aðeins vera það fyrsta sem komi frá Kandís.

Á döfinni sé að framleiða sérstakar karamellur og hefðbundinn kandís, steinsykur, sem margir Íslendingar ættu að þekkja.

Þá sagði Helga að hún mælti með því að para brjóstsykurinn saman með víni.

„Ég myndi algjörlega mæla með birki og epla með hvítvínsglasi. Allan daginn. En hvönnin og sólberið er meira rauðvínið,“ sagði hún kímin.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Helgu hér ofar í fréttinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir