Túlkaði í fyrsta sinn fyrir heyrnarlausan föður sinn

Fallegt augnablik í lífi heyrnarlauss föður hefur farið sem eldur í sinu um netið. Er um að ræða myndskeið sem faðirinn, Zachary, sem er með tiktokaðganginn oursignedworld, deildi á TikTok.

Er myndskeiðið af eins árs gamalli dóttur Zacharys, Madison, sem er með heyrn, þar sem hún túlkar í fyrsta sinn það sem hún heyrir fyrir pabba sinn.

Í myndskeiðinu eru Zachary og dóttir hans að rölta um í matvöruverslun þegar hún lætur skyndilega frá sér dót sem hún heldur á og notar táknmál til að lýsa því fyrir pabba sínum að það sé barn að gráta nærri þeim. Barnsgráturinn heyrist greinilega í myndskeiðinu en Zachary heyrir vitanlega ekki í honum. 

Nú hafa yfir 33 milljónir horft á myndbandið á TikTok en því var deilt á samfélagsmiðilinn fyrir rúmlega mánuði.

Kom túlkun dótturinnar Zachary mikið á óvart en hann lýsir augnablikinu sem „vá“-augnabliki í texta með myndskeiðinu en það má sjá hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir