Brúðkaupið framlenging á góðu sambandi

Margrét Eir giftist ástinni sinni í sumar en hún verður …
Margrét Eir giftist ástinni sinni í sumar en hún verður með jólatónleika 22. desember í fríkirkjunni í Hafnarfirði. Ljósmynd/Facebook

„Ég ætla ekki að vera svona svartsýn en auðvitað er þetta bara atvinnan mín sem hangir á bláþræði,“ sagði Margrét Eir í viðtali við Ísland vaknar á dögunum en hún hefur þó ekki miklar áhyggjur og vonar að kórónuveiran muni ekki hafa áhrif á jólavertíð sviðslistamanna.

Hún fór vítt og breitt í viðtalinu og ræddi meðal annars um brúðkaup sitt og Jökuls Jörgensen, um jólatónleikana sína og það þegar hún datt á sviði á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar í beinu streymi í fyrra.  

Aðspurð segir hún það frábært að vera orðin gift kona þó að lítið hafi breyst en þau Jökull höfðu verið saman í 15 ár fyrir brúðkaupið.

Ennþá á „prufutímanum“

„Framlenging á góðu sambandi. Við erum að hugsa um að halda þessu áfram,“ sagði hún og hló. „En ég veit um fleiri en eitt og fleiri en tvö pör sem hafa skilið eftir að þau giftust. Við erum ennþá í „the trial period“,“ sagði hún glettnislega. 

Margrét heldur sjálf jólatónleika rétt fyrir jól, hinn 22. desember, og segir tónleikana verða rólega og hátíðlega en þeir verða í Fríkirkjunni í Hafnarfirði. 

„Það er mánuður þangað til þannig að ég vona að allt verði aðeins rólegra. Ég veit ekkert um þetta. Maður segir eitthvað eitt en svo bara: neinei, það er allt á uppleið,“ útskýrði Margrét sem sagðist aðspurð ekki vera mikið fyrir zoom-viðburði. 

Minni stemning í streymi

„Ég er bara rosalega mikil „live“ söngkona. Mér finnst æðislegt að fá „feedbackið“ frá áhorfendum, hvort sem það kemur fram í tárum, hlátri eða klappi. Bara að sjá andlitið á fólki. Þó að það sé hálft,“ sagði hún og uppskar hlátur í stúdíóinu. „Þannig að þetta er ekki eins mikil stemning,“ bætti hún við. 

Þá var Margrét einnig með á jólatónleikum Björgvins í fyrra og rifjaði hún upp í viðtalinu þegar hún datt á sviðinu fyrir framan alþjóð.

„Það er eins og einhver sagði mér: Það hefði enginn púllað þetta eins og þú. Ég bara henti mér niður og spratt upp,“ sagði Margrét en hún segist aldrei áður dhafa ottið á sviði. 

„En ég ákvað að gera það í streymi fyrir alþjóð,“ sagði hún en aðspurð sagðist hún engu geta lofað um það hvort hún myndi detta aftur á sviðinu í þetta sinn, hún ætti eftir að ræða það við Björgvin. 

„Ég hugsaði bara: Nú er maður í kjól og það eru sokkabuxur og alls konar þannig að þetta lúkki rétt. Ég hugsaði á leiðinni niður: Margrét, þú tekur eitt svona „burpies“ upp,“ sagði Margrét og hló. 

Hlustaðu á allt viðtalið við Margréti Eiri í spilaranum hér að ofan en hægt er að fá miða á jólatónleika hennar á tix.is.

mbl.is

#taktubetrimyndir