Anna gaf manni sínum hríðarverki: „Þetta voru bara túrverkir“

Anna Karen tveggja barna móðir er mikill húmoristi en hún …
Anna Karen tveggja barna móðir er mikill húmoristi en hún leyfði eiginmanni sínum að prófa tæki sem líkir eftir hríðum. Viðbrögðin má sjá í bráðfyndnu myndbandi á TikTok.

Anna Karen Sigurðardóttir, listakona, húmoristi og tveggja barna móðir, hefur heldur betur vakið athygli upp á síðkastið fyrir myndskeið sem hefur farið víðan völl á samfélagsmiðlum. 

Þar leyfir hún eiginmanni sínum, Ottó, að prófa sérstakt tæki sem líkir eftir túr- og  hríðarverkjum. Þar má sjá Ottó engjast um af verkjum sem hún segir að hafi „bara verið vægir túrverkir“ en Anna var með sömu stillingu og eiginmaður hennar í myndbandinu sem er nú með 37 þúsund áhorf á TikTok

Hefur það fengið gríðarleg viðbrögð og er fólki, sérstaklega konum, afar skemmt. 

Allt í lagi að leyfa honum að prófa

„Ég ákvað að prófa þetta því ég vissi að þetta myndi bjarga lífi mínu að geta hlegið að einhverju svona. Verandi tveggja barna móðir fannst mér bara allt í lagi að leyfa honum að prófa,“ segir Anna Karen í samtali við K100.is.

„Ég sá þetta á TikTok einhvers staðar. Þá var fólk að nota þetta og strákar að prófa að fá túrverki. Ég bara vá, ég verð að eignast þetta því ég hef lúmskt gaman af því að horfa á fólk meiða sig. Er frekar illa innrætt,“ bætti hún við glettnislega en hún pantaði tækið, sem hefur verið að „trenda“ á TikTok, af Amazon. Tækið týndist þó í kjölfarið en hún segir að eiginmaður hennar hafi falið það við komuna til landsins en hún pantaði tækið í fyrra. 

„Hann vissi náttúrulega að ég var að fara að setja það á hann,“ segir hún en tækið fannst nú ári síðar þegar þau hjónin voru í framkvæmdum. 

Bara vægir túrverkir

„Hann var svo þver á því að hann skyldi sko ekki prófa þetta. Ég veit ekki hvað varð til þess að hann samþykkti þetta en þetta voru semsagt viðbrögðin,“ sagði Anna Karen og vísar í myndskeiðið þar sem Ottó engist bókstaflega um með tækið á sér á meðan að Anna Karen er pollróleg og hvetur hann til að anda sig í gegnum verkina. Eins og kom áður fram var hún sjálf með sömu stillingu og hann og segir verkina hafa verið eins og væga túrverki.

„Ég var að fá nákvæmlega sömu straumana. Þetta voru bara svona vægir túrverkir sem greyið maðurinn þoldi ekki,“ segir Anna Karen. 

Hún segir það vera „dásamlegt“ að geta boðið karlmönnum, sem geri lítið úr tilfinningum kvenna varðandi blæðingar og barneignir, að fá að prófa að ganga í gegnum sambærilega verki. 

„Þessi græja heitir „tens machine“ og er notuð til dæmis í fæðingum og fyrir konur sem eru með mikla túrverki eða endómetríósu og svoleiðis, því að þetta sendir villumeldingu upp í heilann. Þegar líkaminn fær svona sársaukaboð þá vinnur straumurinn þannig að þegar hann kemur þá verður sársaukinn ekki eins mikill.

Eins og að „lulla í 4-5 í útvíkkun“

Þannig að konur nota þetta líka þegar þær eru að eiga börn sem er dálítið kaldhæðnislegt,“ segir Anna Karen en hún segir að vöðvarnir spennist sjálfkrafa þegar maður er með tækið. 

Segir hún að hún hafi metið það sem svo að í stillingu 25 hefðu verkirnir verið sambærilegir því að vera að „lulla í 4-5 í útvíkkun“. Þá væru verkirnir sérstaklega líkir hríðarverkjum þegar tækið er bæði tengt neðarlega við magann og við bakið. 

„Ég náði honum [eiginmanninum] mest í 21 og þá dó hann næstum því,“ segir Anna Karen og hló. 

„Mér finnst svo mikið vera mikið um það núna að karlmenn eða strákar eru að kynna sér svona kvennavörur. Tíðavörur og alls konar. En ég gerði þetta aðallega því ég er kvikindi og mér finnst þetta fyndið,“ segir Anna Karen.

„Ef þú ert ekki með húmor og getur ekki hlegið er þetta svolítið tilgangslaust,“ segir hún. 

Anna Karen er virk á samfélagsmiðlum, bæði á Instagram og á TikTok og er hún dugleg að deila ýmis konar gríni og glensi og skemmtilegum sketsum bæði með manni sínum og vinkonum. Hún selur einnig málverk í gegnum miðlana en hægt er hægt er að fylgjast með henni þar

mbl.is

#taktubetrimyndir