Ólaunaða byrðin sem heldur aftur af konum

Þriðja vaktin er ósýnileg ogoft álitin sjálfsögð og lendir þar …
Þriðja vaktin er ósýnileg ogoft álitin sjálfsögð og lendir þar að auki mun frekar á konum. Ragnar Þór, formaður VR, segir þriðju vaktina hugsanlega ástæðu fyrir launamun kynjanna. Samsett ljósmynd: Colourbox/Kristinn Magnússon

Myndband nokkurt frá VR hefur farið víða og er hluti af átaki VR til að vekja athygli á þeirri hugrænu byrði og ólaunuðu ábyrgð á heimilis- og fjölskylduhaldi sem gjarnan er kölluð þriðja vaktin. Er athygli vakin á því hversu margfalt þyngra þessi hluti heimilislífsins fellur á konur, þótt þær séu í sambandi eða í fullri vinnu.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ræddi um þriðju vaktina í viðtali við Síðdegisþáttinn en hann segir herferðina hafa fengið gríðarlega mikil viðbrögð. 

„Ég man ekki eftir öðrum eins heimsóknafjölda inn á heimasíðuna okkar,“ sagði hann en þar er hægt að taka próf og lesa sér til um þriðju vaktina. 

Fyrsta vaktin er að sögn Ragnars starfið okkar og önnur vaktin sú augljósa vakt sem tekur við þegar við komum heim, til dæmis að taka til, þrífa, sækja og skutla börnum í tómstundir og fleira. Þessi önnur vakt segir Ragnar að skiptist oft á tíðum nokkuð jafnt milli para og hjóna. 

Hugræn byrði

Þriðja vaktin er þó minna sýnileg; ósýnileg verkefni sem eru vanmetin og jafvel álitið sjálfsagt að konur sinni frekar en karlar.

„Það er þessi hugræna byrði eins og við köllum hana, þetta aukaálag sem felst í því að sjá um skipulag heimilisins og verkstýra þessu öllu saman,“ sagði Ragnar.

Vakt sem lýkur aldrei

Taldi hann upp hluti eins og það að panta læknatíma, þekkja nöfn vina barnanna, vera í samskiptum við skóla og foreldra vina. 

„Þetta er vakt sem í raun lýkur aldrei. VR hefur verið í fararbroddi í jafnréttismálum í áratugi,“ sagði Ragnar. 

„Við erum alltaf að kafa svolítið dýpra í þetta. Hvar liggur þessi óútskýrði launamunur kynjanna. Við vitum að hann fyrirfinnst. Við vitum það að konur eru síður í ábyrgðarstöðum og stjórnunarstöðum en karlmenn. Við erum að reyna að fara aðeins dýpra í þetta. Hvar liggur þessi vandi,“ útskýrði Ragnar. 

Hugsanleg ástæða

„Það er kannski ástæðan fyrir því að konur taka kannski síður að sér ábyrgðarmeiri hlutverk í atvinnulífinu að ábyrgðin er meiri heima fyrir,“ sagði Ragnar.

Hann fór djúpt í þetta vandamál í viðtali sínu við Sigga og Loga á K100 en hann segir margt benda til þess að þessi þriðja vakt hafi meiri áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu en haldið var í upphafi. 

 Hlustaðu á viðtalið við Ragnar, formann VR, í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir