Húsnæði fæðingarheimilisins fundið

Edythe, Emma, Embla og Stefanía eru konurnar á bakvið hið …
Edythe, Emma, Embla og Stefanía eru konurnar á bakvið hið fornfræga Fæðingarheimili Reykjavíkur sem rís nú í nýrri mynd í Hlíðarfæti 17. mbl.is/Kristinn Magnússon

Húsnæði hefur verið fundið fyrir nýtt Fæðingarheimili Reykjavíkur í Hlíðarfæti 17 í miðbænum. Þetta kemur fram í fréttabréfi Fæðingarheimilisins.

Emma Marie Swift ljósmóðir staðfestir þetta en hún er er ein af þeim sem stendur fyrir opnun fæðingarheimilisins, ásamt fleiri ljósmæðrum, þeim Edythe Mangindin og Emblu Ýr Guðmunds­dótt­ur og Stef­an­íu Ósk Mar­geirs­dótt­ir.

Leitað hefur verið að hinu fullkomna húsnæði fyrir heimilið síðan í sumar og var markmiðið að finna húsnæði sem uppfyllti allar kröfur þeirra sem standa á bakvið fæðingarheimilið.

„Við erum alsælar með að hafa fundið húsnæði sem uppfyllir allar okkar kröfur. Húsnæðið er bjart og fallegt, og staðsetningin frábær þar sem við verðum í nágrenni við lífið í miðbænum, háskólasamfélagið og Kvennadeild Landspítalans,“ segir Emma Swift. 

Fæðingarheimili Reykjavíkur mun opna í Hlíðarfæti 17.
Fæðingarheimili Reykjavíkur mun opna í Hlíðarfæti 17.

Á fæðingarheimilinu verða fæðingarstofur, salur fyrir ýmis konar námskeið og meðferðarherbergi þar sem verður fjölbreytt starfsemi.

Stefna á opnun með vorinu

Spurð út í það hvenær verði hægt að bjóða konum að fæða á fæðingarheimilinu segir Emma að stefnt sé að því að opna með vorinu en að nú taki við tímabil framkvæmda í húsnæðinu þar sem það verður lagað að starfsemi fæðingarheimilins.

Verður næstu vikum varið í að laga húsnæðið að starfsemi fæðingarheimilisins. 

„Við erum þó byrjaðar með ákveðna starfsemi – eins og til dæmis námskeiðin okkar um fæðinguna og tímann eftir fæðingu. Námskeiðin eru á ensku, pólsku og íslensku – og þykir okkur mikilvægt að geta boðið upp á námskeið sem eru sérsniðin að þörfum ólíkra hópa með þessu móti. Við höfum einnig boðið upp á námskeið á netinu á ensku til þess að ná til fjölskyldna sem búa ekki á höfuðborgarsvæðinu,“ útskýrði Emma.

Hingað til afar takmarkaðir möguleikar

Segir hún afar mikilvægt að auka valkosti verðandi foreldra sem sækjast eftir samfelldri þjónustu en hún segir að möguleikarnir hafi hingað til verið afar takmarkaðir þó að þeir hafi aukist verulega síðustu ár. 

„Um leið hafa augu verðandi foreldra opnast fyrir kostum þess að vera í samfelldri þjónustu og fyrir þeim möguleika að hraustar konur í eðlilegri meðgöngu þurfi ekki að fæða barn sitt á hátæknisjúkrahúsi. Við viljum svara þessari eftirspurn,“ segir Emma sem segir markmið ljósmæðranna á fæðingarheimilinu vera að bjóða upp á fyrsta flokks samfellda þjónustu fyrir konur og fjölskyldur þeirra. 

Geti leitað á einn stað

„Við viljum að þær geti leitað á einn stað sem þær þekkja, og til ljósmæðra sem þær þekkja til þess að fá ráðgjöf um getnaðarvarnir og kynheilbrigði, barneignarþjónustu og svo seinna meir ráðgjöf um breytingaskeið. Við munum einnig leita eftir samstarfi við aðrar fagaðila svo sem sjúkraþjálfara, sálfræðinga og jógakennara til þess að veita þverfaglega og fjölbreytta þjónustu. Að síðustu er markmið okkar að mynda samfélag þar sem fjölskyldur geta fengið fræðslu byggða á gagnreyndri þekkingu og fá þann stuðning sem þær þurfa,“ segir Emma. 

Fæðing­ar­heim­ilið var áður rekið á horni Þorfinns­götu og Ei­ríks­götu á ár­un­um 1960-1995 en lengst af var rekst­ur­inn á for­ræði Reykja­vík­ur­borg­ar en heyrði und­ir Borg­ar­spít­al­ann síðustu árin. 

Nú kemur Reykjavíkurborg þó ekki að rekstrinum.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir