Hringadróttinssaga, piparkökupopp og náttföt allan liðlangan daginn

Hringadróttinssögu þríleikurinn er afar vinsæll en myndirnar eru tæplega þrír …
Hringadróttinssögu þríleikurinn er afar vinsæll en myndirnar eru tæplega þrír tímar hver.

Bíó Paradís býður upp á hátíðarsýningu af Hringadróttinssögu þríleiknum í Bíó Paradís 2. janúar 2022. Er fólk hvatt til að mæta bara í náttfötunum og með teppi eða sæng. 

Sigríður Regína Sigurþórsdóttir verkefnastjóri hjá Bíó Paradís mætti í Síðdegisþáttinn og ræddi um sýninguna en hún er mjög spennt yfri henni.

Piparkökupopp í þróun

„Þetta verður sko geggjaður sunnudagur. Við byrjum árið 2. janúar á því að mæta í kósígallanum í Bíó Paradís og borða piparkökupopp,“ sagði Sígríður og lýsti uppskriftinni af piparkökupoppinu sem er nú í þróun hjá kvikmyndahúsinu.

„Svo sit ég þarna undir teppi í sparináttfötunum og horfi á Lord of The Rings, allan daginn!,“ sagði Sigríður. 

Myndirnar eru allar tæplega þrír tímar svo þetta verður að minnsta kosti 10 tíma dagskrá en hlé verður á milli allra myndanna og pítsuveisla í boði frammi. 

„Þannig að maður svelti ekki. Það er ekki hægt að lifa á poppinu – eða ég reyni en sjáum til,“ sagði Sigríður og hló. Veigar verða einnig í boði, meðal annars jólaglögg og mandarínutónik.

Sigríður ræddi einnig um fjölmargar aðrar spennandi sýningar á næstunni í Bíó Paradís en meðal annars er fjöldinn allur af jólamyndum í boði í kósí stemningu. 

Hægt er að kaupa miða á vef Bíó Paradísar.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir