Leita að börnunum í einu ástsælasta jólalagi allra tíma

Happy Xmas (War is Over) með John Lennon, Yoko ono …
Happy Xmas (War is Over) með John Lennon, Yoko ono og börnunum í Harlem Community kórnum er 50 ára í ár.

2021 markar hvorki meira né minna en 50 ára afmæli eins ástsælasta jólalags allra tíma, Happy Xmas (War is Over) með John Lennon, Yoko Ono og Harlem Community-kórnum. Nú er orðrómur á sveimi um að eitthvað spennandi sé í vinnslu í tilefni af stórafmæli lagsins en það kom út 1971.

Í laginu má heyra raddir 30 barna á aldrinum 4-12 ára úr Harlem Community-kórnum og má segja að kórinn sé ómissandi hluti af laginu. 

Fylgjendur tónlistarmannsins Johns Lennons heitins á Twitter velta nú fyrir sér hvort nýleg færsla á síðunni bendi til þess að einhvers konar ný útgáfa af laginu sé á leiðinni.

Í færslunni er leitað eftir aðstoð almennings til að finna börnin sem sungu í kórnum árið 1971. „Börnin“ ættu að vera á sextugs- eða sjötugsaldri í dag. 

Einnig hefur þeirri hugmynd verið velt upp hvort ætlunin sé að verðlauna kórbörnin með einhverjum hætti eða gefa þeim einhvern hluta af þeim gróða sem fengist hefur af laginu, sem að öllum líkindum er verulegur á öllum þessum árum. 

Þó að ekkert sé staðfest í þessum efnum virðist að minnsta kosti eitthvað spennandi vera í vinnslu í tengslum við lagið og stórafmæli þess. 

Benda skal á að lagið hefur oft verið gefið út áður í ýmsum útgáfum en nýjasta útgáfan er líklega sú sem Miley Cyrus, Mark Ronson og sonur Johns Lennons, Sean Ono Lennon, gerðu árið 2018 fyrir Saturday Night Live.

Heimild: Smooth Radio.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir