Bubbi: „Áföll eru ekki einskorðuð við einstaklinga“

Bubbi Mothens ræddi um sýninguna Níu líf og upplifun sína …
Bubbi Mothens ræddi um sýninguna Níu líf og upplifun sína af henni í Ísland vaknar á K100 í morgun.

„Þetta er einhvers konar þjóðarþerapía. Í alvörunni,“ sagði Bubbi Morthens en hann ræddi við þau Kristínu Sif, Ásgeir og Jón Axel í Ísland vaknar í morgun um sýninguna Níu líf í Borgarleikhúsinu sem fjallar um hans eigið líf sem hefur sannarlega slegið í gegn hjá þjóðinni.

Jón Axel fór sjálfur á sýninguna í gær og viðurkenndi að hann hafi grátið í lok sýningarinnar, sem er eitthvað sem Bubbi segist hafa heyrt að gerðist mikið hjá fólki sem fer á hana.

„Við erum að fjalla um hluti sem fólk getur speglað sig í vegna þess að áföll eru ekki bara einskorðuð við einstaklinga heldur höfum við öll farið í gegnum alls konar hluti og við erum að spegla þetta allt,“ sagði Bubbi sem segist vera afar sáttur við líf sitt í dag.

„Ég óttast ekkert“

„Ég myndi aldrei hafa neitt svona skotleyfi á mig nema hafa getu til að standa undir því. Þetta er auðvitað ekki auðvelt – að láta vaða svona í sig. En með mikilli vinnu og hafa farið í gegnum alla þessa hluti eru þeir ekkert að meiða mig í dag. En það var alls ekki auðvelt að fara þessa leið og leyfa leikstjóranum að gera það sem hann langaði,“ sagði Bubbi.

Spurður út í óttann sagðist Bubbi ekki óttast neitt nema eitt.

„Ég óttast ekkert nema þá kannski helst sjálfan mig að því leytinu til að ég þarf alltaf að vita hvar ég er að stíga niður. Af því að við erum bara mannleg. Höfum það alveg á hreinu. Það eru alls konar hlutir í okkur.  Ljós og myrkur og hégómi og græðgi og allur pakkinn sem getur verið að þvælast fyrir okkur sem manneskjur. En aðal málið er að vita það að það er ekkert að óttast,“ sagði Bubbi.

Vildi Bubbi hvetja alla til að hugleiða dauða sinn einu sinni í viku. 

 „Ég held að fólk fatti ekki að dauðinn og lífið eru par og þau eru ástfangin,“ sagði Bubbi að lokum.

Hlustaðu á allt viðtalið við Bubba Morthens í spilaranum hér að neðan en hann ræddi meðal annars um það sem hann hafði lært um sjálfan sig á síðastliðnum árum. Hægt er að nálgast miða á Níu líf á vef borgarleikhússins og á tix.is.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir