„Ekki enn fengið köllunina um að snúa heim“

Stefán Elí fann sig í fjöllum Gvatemala í miðjum heimsfaraldri. …
Stefán Elí fann sig í fjöllum Gvatemala í miðjum heimsfaraldri. „Ég er að beina bróðurhlutanum af minni orku í að skapa tónlist. Þannig að ég er að taka upp og semja og pródúsera og mixa og allt sem fer í það og gefa út tónlist. En þess á milli er ég líka að mála, fara í fjallgöngur og dansa. Og allskyns sem er í boði hér. En það sem ég er að gera mest er að skapa tónlistina,“ segir Stefán um líf sitt í Gvatemala.

„Ég stökk af stað þarna í mars og fann mig bara knúinn til að fara að ferðast. Fór yfir til Mexíkó og fór bara þar í gegn. Fór í rútu á milli staða og fór upp í fjöllin og fór á ströndina.

Og á meðan á þessu öllu stóð var ég með gígjuna mína góðu semjandi tónlist og semjandi ljóð og alls kyns slíkt. Svo fann ég mig bara hér í fjöllunum á Gvatemala sem virtist bara tilviljun að ég endaði hér. Ég hafði aldrei heyrt neitt af þessum stað,“ sagði Stefán Elí Hauksson, tónlistarmaður en hann hefur dvalið í Gvatemala í fjóran og hálfan mánuð en hann ræddi við Síðdegisþáttinn í gær um lífið í landinu.

Varð ástfangin af lífinu í Gvatemala

Dvelur hann nú við stöðuvatnið Atitlán í fjöllum Gvatemala en vatnið er staðsett í gíg á svokölluðu ofureldfjalli sem fylltist af vatni. 

„Svo endaði ég hér og varð bara ástfangin af lífinu sem ég get lifað hér. Það er alveg mögnuð orkan sem er hér. Ég er umkringdur eldfjöllum. Ég er núna úti í garði. Það er alveg haugur af eldfjöllum  í kringum mig. Þannig að þetta minnir á að vera heima nema það er ansi mikið sólríkara,“ sagði hann glettnislega en með gígjunni átti hann við gítarinn sinn.

Segir Stefán að bróðurhlutinn af orkunni hans fari í að skapa tónlist; semja, pródúsera og mixa hana. Þess á milli málar hann, fer í fjallgöngur og dansar.

Þá segist hann hafa safnað pening fyrir ferðalaginu áður en hann lagði af stað en hann fær bæði stefgjöld en svo hefur hann verið að halda svokallaðar hljóðheilanir og aðrar athafnir með fólki úti í Gvatemala en hann segist vera orðinn vel tengdur við samfélagið. 

Ekki fengi köllun um að snúa heim

Aðspurður sagðist hann ekki vita hversu lengi hann muni dvelja í Gvatemala en segist ætla að „leyfa flæðinu að leiða“ sig þangað sem honum er ætlað að vera. 

„Núna líður mér eins og ég haldi mér hér um ókomna tíð. En ég veit ekki hversu lengi. Ég hef ekki enn fengið köllunina um að snúa heim,“ sagði Stefán.  

Hann vonast þó til að geta heimsótt Ísland aftur næsta sumar, ef aðstæður leyfa.

Stefán gaf út glænýtt lag í vikunni, lagið Big Blessings, og tónlistarmyndband við það sem er tekið upp í Gvatemala, en það má heyra hér að neðan en viðtalið við hann í heild sinni er neðst í fréttinni.

 Viðtalið við Stefán má heyra hér.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir