Ein stærsta netflixmynd ársins slær ekki í gegn

Red Notice stóðst ekki væntingar hjá Ragga kvikmyndagagnrýnanda.
Red Notice stóðst ekki væntingar hjá Ragga kvikmyndagagnrýnanda.

Red Notice stóðst ekki væntingar hjá kvikmynda- og þáttagagnrýnandanum Ragnari Eyþórssyni eða Ragga sem mætti í Síðdegisþáttinn að vana og ræddi um myndina sem er sögð stærsta mynd ársins hjá Netflix.

Fær myndin einungis tvær og hálfa stjörnu af fjórum hjá Ragga.

„Það lá mjög vel á mér en hún svona – ah – skilaði mér ekki á sama stað og ég var,“ sagði Raggi.

Leikaravalið er ekki af verri endanum í myndinni en Dwayne „The Rock“ Johnson, Ryan Reynolds og Gal Gadot fara með stærstu hlutverkin í myndinni. 

Johnson leikur lögreglumann frá FBI, John Hartley, sem fær listmunaþjófinn Nolan Booth (Reynolds) til að hjálpa sér að ná í erkióvin Booths, glæpakvendið og listmunaþjófinn sem kallar sig The Bishop (Gadot).

„Þetta er í raun kapphlaup listmunaþjófanna til að stela einhverjum þremur gulleggjum sem Kleópatra drottning átti,“ útskýrði Raggi.

Stóðst ekki væntingar

„Þetta er í rauninni Ryan Reynolds að leika Ryan Reynolds. Og „The Rock“ er að leika „The Rock“,“ sagði hann.

„Miðað við hvað ég er búin að bíða lengi eftir henni þá stóðst hún ekki væntingarnar. Tvær og hálf, því miður,“ sagði Raggi sem segir myndin þó ágæt skemmtun.

Red Notice fær þó 6,4/10 á IMDB og 35% í Tomatoemeter á Rotten Tomatoes. Áhorfendur á Rotten Tomatoes gefa henni þó heil 92%.

Vilja bara Tom einan

Raggi gagnrýndi einnig Apple+ myndina Finch með Tom Hanks.

„Fólk vill bara horfa á Tom leika á móti sjálfum sér,“ sagði Raggi sem segir myndina vera glaðbeittari en hún átti að vera. „Sem er henni bara til happs held ég. Maður kemur ekkert leiður úr henni,“ sagði Raggi. 

Myndin fjallar í suttu máli um Tom Hanks sem virðist vera eini maðurinn sem eftir er á jörðinni, eftir eins konar heimsendi, sem lifir lífi sínu einn með hundinum sínum. Þegar hann gerir sér grein fyrir að hann á lítið eftir ólifað ákveður að smíða vélmenni til að hugsa um hundinn sinn eftir að hann deyr.

Myndin fær samt aðeins tvær stjörnur af fjórum hjá Ragga. Hún fær 7/10 á IMDB og 73% á Tomatometer á Rotten Tomatoes. Þar gefa áhorfendur myndinni 68%. 

Hlustaðu Ragga gagnrýna og ræða Red Notice og Finch við Loga og Sigga  hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir