Veltir fyrir sér hvort barþjónninn hafi tekið þátt í byrluninni

Hulda Hrund Sigmundsdóttir veltir fyrir sér hvernig einhverjum tókst að …
Hulda Hrund Sigmundsdóttir veltir fyrir sér hvernig einhverjum tókst að lauma eitri í drykkinn hennar án hennar vitundar en hún sá engan annan en barþjóninn handleika drykkinn. Samsett ljósmynd: K100/Colourbox

Hulda Hrund Sigmundsdóttir leikkona lýsti reynslu sinni af því þegar henni var byrluð ólyfjan á skemmtistað niðri í bæ í morgunþættinum Ísland vaknar í gærmorgun en hún velti þar fyrir sér hvernig einhverjum tókst að lauma eitri í drykkinn hennar án hennar vitundar.

Sagðist hún aðspurð velta því fyrir sér hvort barþjónninn á skemmtistaðnum hafi tekið þátt í að lauma efninu í drykkinn en hún kveðst hafa heyrt af slíkum sögum.

„Mig grunar það. Góður punktur. Ég hef ekki hugsað það langt en ég hef heyrt sögur núna á netinu þar sem fólk er að gruna þennan barþjón,“ sagði Hulda í viðtalinu spurð út í barþjóninn.

Eins og áður kom fram á K100.is var Huldu byrluð ólyfjan eftir að maður nokkur gerðist afar ágengur og vildi kaupa handa henni drykk. Eftir mikið suð frá manninum gaf hún eftir með því skilyrði að maðurinn mætti aðeins kaupa handa henni drykk í flösku sem hún myndi svo sjálf taka við af barþjóninum. Þá sagði hún frá því í viðtalinu að hún hafi talið sig vera öruggari með flösku enda er stútur flöskunnar frekar mjór. 

Hún tók svo flöskuna frá barþjóninum en drykkurinn í flöskunni reyndist þrátt fyrir þetta hafa verið blandaður með einhverju lyfi sem hafði sljóvgandi áhrif á Huldu. Hulda sá þannig ágenga manninn sem síðar reyndi að bera hana inn í leigubíl ásamt vinum sínum, aldrei handleika flöskuna.

Hulda sagði þá aðra sögu af vinkonu sinni sem hafði lent í svipuðu atviki á skemmtistað nema þá lenti karlkyns vinur hennar í því að einhverju var laumað í drykkinn hans.

„Ein vinkona mín keypti semsagt tvo drykki; einn kokteil og einn bjór. Kokteillinn var handa karlkyns vini hennar og bjórinn var handa henni og enginn annar [en barþjónninn] kom nálægt þessum drykkjum en [eitrið] var semsagt ofan í kokteilnum,“ útskýrði Hulda.

Markmiðið að gera einstaklinginn varnarlausan

Hún sagði ekki leiki neinn vafi á því að það að byrla einhverjum ólyfjan sé dæmi um einbeittan brotavilja einstaklings. 

„Markmiðið er að gera konuna eða manninn; einstaklinginn, varnarlausan þannig að þú getir misnotað líkama hans,“ sagði Hulda sem segist heppinn að vinkonur hennar tóku nokkra sopa af drykknum hennar sem var líklega það sem bjargaði henni á endanum og gerði það að verkum að hún náði að svara símanum og láta vita hvar hún var stödd, áður en hún var dregin í leigubíl af fyrrnefndum mönnum.

Hún lýsti áhrifum efnisins sem hún innbyrti eins og hugrænni lömun.

„Svona eins og þú sért föst í sjóriðu. Þú verður algjör tuskubrúða,“ sagði Hulda sem er meðlimur í aðgerðarhópnum Öfgum og berst nú fyrir því að opna umræðu um byrlanir sem eiga sér stað á skemmtistöðum og bæta forvörn og viðbrögð við þeim.

Hægt er að hlusta á Huldu lýsa því þegar henni var byrluð ólyfjan í spilaranum hér að neðan.

 mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir