„Staðan getur snúist hratt í höndunum á okkur“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum augljóslega í einhverri uppsveiflu í faraldrinum eins og svo sem við sjáum nánast alls staðar í kringum okkur. Það virðist vera það sama í öllum löndunum,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna í samtali við Ísland vaknar í morgun. Minntist hann sérstaklega á Færeyjar og Danmörku þar sem Covid-19-smit hafa aukist talsvert – rétt eins og hér á landi.

„Gærdagurinn virðist ekki ætla að vera minni allavega,“ bætti hann við en smittölur gærdagsins hafa ekki verið opinberaðar.

„Þetta var auðvitað það sem við töluðum um að við höfum séð svo oft þegar við höfum farið í afléttingar. Maður var með ákveðnar efasemdir en ég held að staðan hafi verið þannig að það var ekki annað að gera en fara í afléttingar. 

Við stefnum að því alltaf að aflétta öllu. Við viljum ekki hafa takmarkanir í okkar samfélagi út af þessu. En á meðan staðan er svona verðum við að horfast í augu við þær staðreyndir sem blasa við,“ sagði Víðir í viðtalinu en hann sagði þó að minna væri nú horft á nákvæman fjölda smita og meira á stöðu heilbrigðiskerfisins. Benti hann á að um 2% þeirra sem smituðust núna þyrftu á spítalainnlögn að halda. 

„Megum ekki gleyma okkur í þessu“

„Og síðan koma svona atriði eins og við sáum í gær þar sem inniliggjandi sjúklingar smitast af Covid, sem kemur ofan á þetta. Þannig að staðan getur snúist hratt í höndunum á okkur,“ sagði Víðir og átti við fjóra sjúklinga sem greindust smitaðir á hjarta-, lungna- og augnskurðdeild 12G á Land­spít­ala og greint var frá á mbl.is í gær.

„Við megum ekki gleyma okkur í þessu. Við þurfum að vera með okkar persónubundnu sóttvarnir núna þó svo að takmarkanirnar í samfélaginu séu nánast engar. Þá minnir þetta okkur á að við þurfum að passa okkur. Það er okkar hegðun sem skiptir langmestu máli í þessu,“ sagði Víðir og taldi upp helstu leiðir til að minnka líkur á smiti, svo sem handþvott, grímunotkun og það að halda fjarlægð.

„Það á ekki að þurfa reglugerðir“

„Það á ekki að þurfa einhverjar reglugerðir til þess að við gerum þetta. Við kunnum þetta alveg,“ bætti hann við.

Aðspurður sagðist Víðir sjálfur vera á leið á Egilsstaði þar sem hann mun hitta starfsfólk almannavarna og taka stöðuna á öðrum almannavarnamálum sem hann segir að hafi setið á hakanum lengi vegna kórónuveirufaraldurs.

Hlustaðu á Víði í Ísland vaknar í spilaranum hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir