Huldu var byrluð ólyfjan á skemmtistað – „Þeir voru að draga mig inn í leigubíl“

Hulda lýsti kvöldi sem var týpískt vinkonukvöld þar til henni …
Hulda lýsti kvöldi sem var týpískt vinkonukvöld þar til henni var byrlað ólyfjan. Hún segir byrlanir afar algengar og að auðvelt sé að sjá mun á fólki sem er drukkið og sem hefur verið byrlað ólyfjan. Samsett ljósmynd: K100/Colourbox

„Ég skynjaði ekkert hvað var í gangi. Þetta var ný tilfinning. Þetta var eins og ég vær föst í bollunum í gamla daga í þessu tívolíi sem mætti í Hafnarfjörð. Ég var þar bara inni í mér.“

Svona lýsir Hulda Hrund Sigmundsdóttir leikkona tilfinningunni þegar henni var byrluð ólyfjan á skemmtistað. Hún lýsti upplifun sinni í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun en hún er meðlimur í femínistaaðgerðahópnum Öfgum og berst nú fyrir því að opna umræðu um byrlanir sem eiga sér stað á skemmtistöðum og bæta forvörn og viðbrögð við þeim en mikil umræða hefur verið um slíkt ofbeldi í Reykjavík upp á síðkastið.

Hulda lýsti upplifun sinni ítarlega í þættinum en hún segir kvöldið hafa verið „týpískt vinkonukvöld“ þar til maður nokkur gerðist mjög ágengur við hana og vildi kaupa handa henni drykk. 

Sagðist hún hafa gefið eftir, eftir mikið suð frá manninum, en hún hafi sett það skilyrði að hann mætti aðeins kaupa handa henni einn drykk í flösku sem hún myndi taka sjálf við af barþjóninum.

Fannst hún öruggari með flösku

„Hún [barþjónninn] réttir mér flöskuna og ég tek við henni. Þá finnst mér ég vera öruggari því stútur flöskunnar er frekar mjór,“ sagði Hulda sem segir að hún hafi síðan á næstu 15 mínútum drukkið innihald flöskunnar en vinkonur hennar hafi fengið nokkra sopa. Þetta telur hún að hafi verið eitt af því sem bjargaði henni – enda kláraði hún ekki drykkinn sem hafði greinilega verið blandaður með einhverju.

Eftir þessar 15 mínútur sagði Hulda að vinkonur hennar hefðu farið en þær voru strax orðnar veikar eftir nokkra sopa. Hún hefði verið orðin nánast algjörlega dofin sjálf en hún lýsir því að sér hafi liðið eins og tuskubrúðu.

„En ég heyrði allt sem var að gerast og sá svona aðeins hvað var að gerast,“ lýsti Hulda sem stóð þá með manninum sem hafði verið svo ágengur við hana.

Þóttist vera bróðir hennar

Vinur hennar hringdi í hana á þessari stundu og náði hún rétt svo að láta hann vita hvar hún var stödd og var vinurinn fljótur að heyra að ekki var allt með felldu og tók sprettinn til hennar en hann var sem betur fer skammt undan.

„Þar er þessi maður sem ég hafði verið að tala við og allir vinir hans búnir að umkringja mig og þeir voru að draga mig inn í leigubíl,“ lýsti Hulda sem segir þetta hafa verið sjónarspilið sem vinur hennar kom að. Hann hafi svo náð að bjarga henni frá mönnunum með því að þykjast vera bróðir hennar.

Hlustaðu á Huldu lýsa reynslu sinni og ræða um byrlanir í spilaranum hér að neðan. 

 

Hulda ræddi um þetta algenga og alvarlega ofbeldi í þættinum en hún benti á að margt þyrfti að breytast varðandi viðbrögð við byrlunum. Sagði hún meðal annars að manneskja, sem hefði verið byrluð ólyfjan, væri oft ekki send á á bráðamóttöku og að stundum væru vinir, sem væru oft á tíðum drukknir, látnir bera ábyrgð á henni. Sagði hún jafnframt ákaflega mikilvægt að eiturefnapróf væri tekið sem fyrst eftir að manneskju hefði verið byrlað eitthvað. Það sagði hún að væri því miður nánast aldrei gert.

Hulda sagði jafnframt mikinn mun vera á drukknu fólki og fólki sem hefði verið byrluð ólyfjan og bendir meðal annars á að drukkinn einstaklingur hafi yfirleitt sársaukaskyn. Þá sagði hún frá því að hún hefði bæði rætt við dyravörð og hjúkrunarfræðinga sem voru sammála um að reynslan hefði sýnt þeim að það væri himinn og haf á milli manneskju sem er drukkin og manneskju sem hefur verið byrluð ólyfjan.

„Erum búnar að fá nóg“

Hulda fagnar því þó að meira er verið að tala um byrlun í dag. 

„Mín upplifun er sú að skömmin sé minni. Að við séum bara búnar að fá nóg og séum bara að segja þetta,“ sagði Hulda.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir