Bestu hlaðvörpin frá Ása

Ásgrímur Geir eða Ási heldur úti hlaðvarpinu „Betri helmingurinn með Ása“ en K100.is ræddi við hann um hlaðvarpið og fékk hann til að gefa álit á sínum uppáhaldshlaðvörpum.

„Það verður að segjast að ég var nokkuð seinn á hlaðvarpsvagninn en ég byrjaði að hlusta á hlaðvörp í lok 2019 og féll alveg fyrir hlaðvarpsforminu þar sem þau eru töluvert frábrugðin til dæmis útvarpi upp á lengd að gera. Í hlaðvörpum hefur maður í raun endalausan tíma til þess að ræða ákveðið málefni og mér finnst það afar heillandi,“ segir Ásgrímur Geir Logason eða Ási eins og hann er jafnan kallaður en hann stjórnar vinsæla hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása. Hann segist hafa fengið hugmyndina að hlaðvarpinu árið 2020. Segist hann hafa „gengið með hugmyndina í maganum“ í nokkra mánuði áður en þátturinn leit dagsins ljós í apríl 2021.

„Þá hafði ég hlustað á fjöldann allan af viðtalsþáttum þar sem sumir viðmælendur höfðu jafnvel komið fyrir í mismunandi þáttum. Mér datt þá í hug að það gæti verið skemmtilegur vinkill að taka viðtal við þjóðþekkta einstaklinga ásamt þeirra betri helmingi þar sem þar gætu verið fleiri skemmtilegar hliðar á sögunum,“ segir Ási.

„Ég legg mikið upp úr því að þátturinn sé á léttu nótunum, að öllum líði vel í stúdíóinu og að það sé svolítið svona „heima í stofu“-fílingur. Þátturinn hefur gengið framar vonum og er greinilegt að fólk hefur mikinn áhuga á að hlusta á Betri helminginn en 27. þáttur kom út í gær og er mikið skemmtilegt framundan!“ bætir hann en í nýjasta þættinum ræðir hann við listahjónin Reyni Lyngdal, leikstjóra- og kvikmyndagerðarmann og Elmu Lísu Gunnarsdóttur, leikkonu. 

Ási mælir hér með sínum uppáhaldshlaðvörpum:

Í ljósi sögunnar

„Ég á mér nokkra uppáhaldshlaðvarpsþætti en fyrst ber að nefna Í ljósi sögunnar. Það var fyrsta hlaðvarpið sem ég uppgötvaði á sínum tíma og féll ég algjörlega fyrir því. Það er eitthvað við það að hlusta á Veru segja sögur af liðnum atburðum, heldur mér alveg við efnið!“

The Joe Rogan Experience

„Joe Rogan tekur viðtöl við allan skalann af áhugaverðu fólki og fer djúpt ofan í saumana á allskyns málefnum.“

Dr. Football

„Sem mikill fótboltaáhugamaður þá verður Dr. Football að vera ofarlega á hlaðvarpslistanum mínum! Ég viðurkenni að ég er ekkert djúpt sokkinn í boltann en það er bara eitthvað við þáttinn sem maður festist í.“

The Snorri Björns Podcast Show

„Uppgötvaði Snorra Björns í fyrsta samkomubanninu og binge-hlustaði á þættina hans á meðan ég sat heima og púslaði. Virkilega vandaðir þættir hjá honum og hefur hann einstaklega gott lag á því að eiga áhugavert samtal við alls konar fólk!“

Þarf alltaf að vera grín

„Þau eru bara svo geggjuð, algjörlega ófeimin við að vera þau sjálf og gaman að hlusta á þau spjalla um allt og ekkert. Fátt betra en að stilla á þau þegar maður er að þrífa eða í göngutúr og vantar eitthvað létt og skemmtilegt!“

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir